Þingmenn eru svekktir og hissa á ákvörðun Honda og hafa hvatt fyrirtækið til að hugsa málið betur. Rúmlega 100.000 Honda Civic bílar eru framleiddir árlega í verksmiðjunni en þetta er eina verksmiðja Honda í ESB en hún hefur verið starfrækt í rúmlega 30 ár.
Sky segir að nokkrir þættir valdi því að ákveðið hafi verið að loka verksmiðjunni. Almennt sé eigi bílaiðnaðurinn í vök að verjast í Evrópu vegna minni bílasölu. Nýr viðskiptasamningur á milli ESB og Japan hafi haft í för með sér að tollar voru felldir niður á bílum frá Japan og því sé minni þörf fyrir framleiðslu í Evrópu. Þá er ekki talið útilokað að Brexit eigi hlut að máli.
Unite stéttarfélagið velkist ekki í neinum vafa um að Brexit eigi hér stærstan hlut að máli og segir í tilkynningu frá félaginu að sú óvissa sem ríkir um Brexit og hvernig Theresa May, forsætisráðherra, hefur tekið á Brexit sé ástæðan fyrir lokuninni. Talsmaður félagsins segir að Bretland megi illa við því að tapa þeim 3.500 störfum sem eru í verksmiðjunni en það séu sérhæfð störf þar sem góð laun séu í boði.