Ísland er nú talið meðal tíu líklegustu þjóðanna til að sigra í Eurovision samkvæmt erlendum veðbönkum. Stærstu veðbankarnir, Bet 365 og Skybet, meta líkur Íslands tuttugu á móti einum. Ef það gengur eftir myndi Ísland fljúga upp úr undanriðlinum og hafna í áttunda sæti.
Hvað varðar Söngvakeppni Sjónvarpsins er hljómsveitin Hatari talin líklegust til þess að fara áfram. Er stuðullinn á það hjá Eurovisionworld.com 1,95 á móti einum.
Til að setja þetta í samhengi þá var íslenska framlagið í fyrra, Our Choice í flutningi Ara Ólafssonar, neðst hjá erlendum veðbönkum fyrir keppnina. Reyndust þeir sannspáir því að lagið fékk fæst stig allra í keppninni.