Söngvarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson tryllti gesti í Háskólabíói og heima í stofu í gærkvöldi á seinni undankeppni Söngvakeppninnar með lagið Hvað ef ég get ekki elskað?
Friðrik söng sig alla leið í úrslitin 2. mars, og er því einu skrefi nær því að verða fulltrúi Íslands í Eurovision í Ísrael í maí.
Eins og sást í beinni útsendingu á RÚV var Friðrik í mikilli sæluvímu og sveif um á bleiku skýi. Gleðin stoppaði þó ekki í Háskólabíói því Friðrik bauð í óvænt eftirpartí, eins og hann sýndi frá á Instagram-sögu sinni.
Meðal gesta voru Eurovision-stjörnurnar Svala Björgvinsdóttir og Eyþór Ingi Gunnlaugsson, sem og fleiri þjóðþekktir einstaklingar eins og meðfylgjandi skjáskot sýna.