Flytjendurnir Friðrik Ómar, með lagið Hvað ef ég get ekki elskað? og Tara Mobee með Betri án þín, komust áfram í seinni undankeppni Söngvakeppninnar í kvöld, sem fram fór í Háskólabíói. Þetta þýðir að Friðrik Ómar og Tara keppa í úrslitunum í Laugardalshöll þann 2. mars ásamt Heru Björk og Hatara, og eru einu skrefi nær því að verða fulltrúi Íslands í Eurovision í Ísrael í maí.
Spennan var rafmögnuð þegar að Hraðfréttapiltarnir Benedikt og Fannar lásu upp úrslit kvöldsins og mátti heyra saumnál detta áður en úrslitin voru kunn.
Benedikt og Fannar tilkynntu jafnframt að dómnefnd hefði valið eitt lag enn til að keppa á úrslitakvöldinu, svokallað „wild card“, en það var Kristina Bærendsen með lagið Ég á mig sjálf sem hlaut það lukkuspil.
Eins og áður segir verður úrslitakvöldið í Laugardalshöll þann 2. mars og mun hin hæfileikaríka Eleni Foureira skemmta gestum, en hún var fulltrúi Kýpur í Eurovision í fyrra með lagið Fuego, sem endaði í öðru sæti í keppninni.
Fókus óskar flytjendum kvöldsins til hamingju með árangurinn.