fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Hvað varð um Eurovision-stjörnurnar?

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 24. febrúar 2019 15:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margar af skærustu stjörnum íslenskrar tónlistar hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá á að standa stóra sviðinu í Eurovision. Á keppnina sjálfa horfa um 180 milljón manns ár hvert og keppnin því kjörið tækifæri til að koma sér á framfæri. Það er mismunandi hvernig fólk nýtir þetta tækifæri og sumir hverfa einfaldlega úr sviðsljósinu eftir keppnina.

Halla Margrét
Syngur óperu fyrir Ítala.

Í óperuhallir Ítalíu

Halla Margrét Árnadóttir tók þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd árið 1987 en þá voru Íslendingar enn í áfalli yfir gengi Gleðibankans. Hún söng angurvært lag Valgeirs Guðjónssonar, Hægt og hljótt.

Halla er óperusöngkona og flutti til Ítalíu nokkrum árum eftir Eurovision. Þar hefur hún búið í meira en aldarfjórðung og giftist ítölskum manni. Íslendingar hafa ekki orðið hennar varir, svo orð sé á gerandi, en hún hefur sungið í stórverkum á borð við Tosca og Cavalleria Rusticana.

Ingibjörg Stefánsdóttir
Rekur jógasetur.

Rólegra líf

Ingibjörg Stefánsdóttir var stór stjarna á Íslandi á tíunda áratugnum. Hún lék meðal annars aðalhlutverk kvikmyndarinnar Veggfóður: Erótísk ástarsaga sem út kom árið 1992. Ári síðar flaug hún til Írlands til að syngja lagið Þá veistu svarið í Eurovision.

Eftir þetta lék Ingibjörg í kvikmyndinni Nei er ekkert svar, sem fékk bagalega dóma, og frægð hennar fölnaði hratt. Síðan þá hefur hún einbeitt sér að rólegri hlutum, nefnilega jóga. Árið 2005 stofnaði hún stöðina Yoga Shala í Skeifunni og rekur hana enn.

Telma Ágústsdóttir
Hætti í ballhljómsveit og gekk í kór.

Syngur í rokkkór

Framlag Íslands til Eurovision-keppninnar árið 2000 var lagið Tell me! í flutningi Einars Ágústs Víðissonar og Telmu Ágústsdóttur. Allir muna eftir Skímó-stjörnunni og hvíta pilsinu hans, en hvað varð um Telmu?

Telma, sem er dóttir Ágústs Atlasonar úr Ríó Tríó, var á þessum tíma söngkona hljómsveitarinnar Spur. Hún varð stjarna á einni nóttu með þátttökunni, en hvarf jafn harðan úr sviðsljósinu. Hún starfar nú hjá Isavia en hefur hins vegar ekki alveg sagt skilið við tónlistina. Til að mynda syngur hún með Rokkkór Íslands.

Kristján Gíslason
Reglulegur þátttakandi í Eurovision.

Færði sig í bakraddirnar

Árið eftir að Einar Ágúst tók þátt í Eurovision var kominn tími á aðra Skímó-stjörnu, Gunnar Ólason. Með honum söng Kristján Gíslason lagið Birtu eða Angel eins og það hét á sviðinu í Kaupmannahöfn. Tvíeykið kallaði sig TwoTricky og starfaði saman í tvö ár eftir Eurovision.

Margir hafa velt fyrir sér hvað varð um þennan Kristján sem er Sauðkrækingur að uppruna. Líklegt er að þeir hafi séð hann án þess að átta sig á því, því að hann hefur sungið í bakröddum í Eurovision síðan. Fyrst hjá Heru Björk í Ósló árið 2010 og síðan hjá Eyþóri Inga í Malmö þremur árum síðar. Kristján er grafískur hönnuður og starfar hjá VÍS.

María Ólafsdóttir
Lék Ronju í Mosó.

Lítil skref í tónlist og leiklist

Sumir urðu gáttaðir þegar Íslendingar völdu ekki lagið Í síðasta skipti í flutningi Friðriks Dórs sem framlag Íslands árið 2015. Í staðinn sigraði lagið Lítil skref, eða Unbroken, flutt af Maríu Ólafsdóttur. Lagið komst ekki upp úr riðlakeppninni í Vínarborg.

Síðan þá hefur lítið frést af Maríu sem er 25 ára gömul. Hún hefur ekki sagt skilið við tónlistina og gaf frá sér lagið Hækka í botn síðasta sumar. Þá hefur hún einnig reynt fyrir sér í leiklistinni og meðal annars leikið Ronju ræningjadóttur hjá Leikfélagi Mosfellssveitar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“