Hjartasteinn og A Reykjavík Porno komnar í almenna sýningu
Tvær leiknar íslenskar kvikmyndir verða frumsýndar á Íslandi í kvöld, föstudaginn 13. janúar. Þetta eru Hjartasteinn og A Reykjavík Porno.
Hjartasteinn, sem er eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, er ljúfsár þroskasaga sem gerist á einu örlagaríku sumri í íslensku smáþorpi. Myndin fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin, uppgötva nýjar tilfinningar og hneigðir. Myndin hefur hlotið fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum víða um heim að undanförnu, meðal annars aðalverðlaun Norrænna kvikmyndadaga á kvikmyndahátíðinni í Lübeck.
A Reykjavík Porno er skosk-íslensk framleiðsla. Það er Skotinn Graeme Maley sem skrifar og leikstýrir, en aðalleikararnir og mikill fjöldi þeirra sem koma að myndinni eru Íslendingar. Myndin, sem gerist á myrkasta tíma ársins í Reykjavík, fjallar um ungan mann sem er kynntur fyrir vafasamri klámsíðu. Forvitnin hleypur bráðlega með hann í gönur og í kjölfarið hefst örlagarík atburðarás sem hann hefði ómögulega getað séð fyrir.