fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Vill löggjöf um hertara eftirlit með barnaníðingum eftir afplánun

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 16. febrúar 2019 12:00

Silja Dögg Gunnarsdóttir Hefur í tvígang lagt fram frumvarp um hert eftirlit með barnaníðingum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur í tvígang lagt fram frumvarp um hert eftirlit með dæmdum barnaníðingum. Frumvarpið hefur ekki enn fengið umræðu en samkvæmt því myndu þeir sem taldir eru hættulegir umhverfi sínu þurfa að gangast undir vissar kvaðir, svo sem bann við búsetu þar sem börn eru, eftirliti með netnotkun þeirra og eftirliti lögreglu með heimili þeirra. Barnaverndaryfirvöldum á hverjum stað yrði gert viðvart um búferlaflutninga þeirra og kerfið því betur í stakk búið til að sinna eftirlitinu. DV ræddi við Silju um frumvarpið og stöðuna í málaflokknum.

 

Lagði fram frumvarp í tvígang

Silja Dögg hefur setið á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn síðan 2013. Hún lagði fyrst fram frumvarp um breytingu á barnaverndarlögum og almennum hegningarlögum vorið 2018. Þegar það komst ekki á dagskrá lagði hún það aftur fram um haustið. Hún segir að ástæðan hafi verið síendurtekinn fréttaflutningur um dæmda barnaníðinga sem halda áfram að brjóta af sér eftir að afplánun lýkur. Hún segir:

„Menn eru dæmdir, þeir sitja inni, svo fara þeir aftur út. Í sumum tilvikum er vitað að þeir muni brjóta af sér aftur. Eða það eru að minnsta kosti yfirgnæfandi líkur á því. Ég hugsaði hvað væri til ráða og var þá bent á leið sem hefur verið farin í Bretlandi með góðum árangri. Ég ákvað því að nota þessa hugmynd en auðvitað þyrfti að aðlaga hana að íslensku umhverfi.“

 

Þurfum að hugsa út fyrir rammann

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að barnaverndarnefndir og aðrir viðkomandi aðilar verði upplýstir þegar dæmdur barnaníðingur flytur búferlum. Það er ef hann flytur til Akureyrar, svo dæmi sé tekið, yrðu stofnanir þar í bæ látin vita.

„Þetta gengur út á að tengja kerfin betur saman. Barnavernd, löggæsluna, dómstólana og alla sem koma að þessum málum. En það yrðu ekki hengd upp plaggöt með myndum af brotamönnum á staðnum. Þetta snýst um samvinnu. Núna er þetta þannig að eftir afplánun láta þessir menn sig hverfa, skipta um nafn og flytja til annarra sveitarfélaga. Þannig kaupa þeir sér tíma, halda áfram að brjóta af sér og eyðileggja fjölda fólks, fyrir lífstíð jafnvel. Það sem ég er að leggja fram í þessu frumvarpi er kannski ekki eina rétta leiðin en þetta er tilraun til þess að byrja einhvers staðar. Að taka umræðuna og reyna að finna leið til að koma í veg fyrir þessi brot.“

Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu eru um það bil tíu prósent kynferðisafbrotamanna talin líkleg til þess að brjóta af sér á nýjan leik.

„Meginreglan er sú að þegar menn hljóta dóm og afplána þá séu þeir búnir að gera upp skuldina við samfélagið. En þegar við erum með þessa tegund af brotamönnum þá verðum við að hugsa út fyrir rammann. Við náum ekki árangri með núverandi leiðum og náum ekki að vernda borgarana.“

Ef einstaklingur hefur brotið af sér gegn barni og er talinn líklegur síbrotamaður samkvæmt áhættumati yrði hægt að gera eftirfarandi öryggisráðstafanir eftir að afplánun lýkur í þann tíma sem nemur hámarksrefsingu við brotinu.

  1. Brotamanni yrði gert að gangast undir meðferð hjá heilbrigðisstarfsfólki.
  2. Honum væri skylt að mæta í viðtöl hjá félagsþjónustu.
  3. Netnotkun og samfélagsmiðlanotkun hans væri undir eftirliti.
  4. Hann mætti ekki neyta áfengis eða annarra vímuefna.
  5. Lögreglan hefði eftirlit með heimili hans.
  6. Hann mætti ekki búa á heimili þar sem börn væru í skemmri eða lengri tíma.

Viðurlögin við brotum á þessum öryggisráðstöfunum yrðu allt að tveggja ára fangelsi.

 

Valfrelsi vandamál

Áhættumat er framkvæmt í dag en Silja segir vandamálið vera að það sé valkvætt. Brotamaðurinn sjálfur ákveður hvort hann undirgengst það. Ef frumvarpið færi í gegn yrði áhættumat skylda og framkvæmt af fagaðilum á afplánunartímabilinu.

„Það er ekki verið að tala um að allir kynferðisbrotamenn undirgangist kvaðir að afplánun lokinni. Þetta er fámennur hópur en hættulegur.“

Getur betrunarvist í fangelsi gert eitthvað fyrir þennan hóp?

„Það eru til meðferðir fyrir barnaníðinga, lyfjavönun, samtalsmeðferð og annað. En svo eru aðrir sem segja að þetta sé ólæknandi. Það sé hins vegar hægt að halda þessu niðri, ef viðkomandi er samstarfsfús og vill berjast gegn þessu. Vandinn er að þessar meðferðir eru valkvæðar.“

 

Ekki nornaveiðar

Í greinargerð með frumvarpinu er til dæmis gert ráð fyrir að dæmdir barnaníðingar geti ekki skipt um nafn til að fela sig. Silja segir að þetta sé flókið mál og geti stangast á einhvern hátt á við persónuvernd.

„Þetta frumvarp brýtur grunnhugmyndafræði réttarkerfisins sem við að öllu jöfnu göngum út frá. Menn sem falla í þennan hóp verða undir ákveðnu eftirliti eftir að afplánun er lokið. En þetta snýst ekki um nornaveiðar, að hús þessara manna séu merkt og þar fram eftir götum.“

Í sumum löndum eru upplýsingar um dæmda kynferðisbrotamenn aðgengilegar, til dæmis á vefsíðum, með nafni og mynd brotamanns. Hér á Íslandi hafa borgararnir tekið sig saman og komið á legg vefsíðum og samfélagsmiðlasíðum þar sem birtar eru myndir, nöfn og heimilisföng dæmdra barnaníðinga sem lokið hafa afplánun. Eins og fjallað hefur verið um lagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra fram frumvarp um breytt fyrirkomulag á birtingu dóma. Yrðu þá dómar í kynferðisbrotamálum ekki birtir opinberlega á héraðsdómstólastigi sem gengur í berhögg við vilja almennings um að fá upplýsingar um þessa brotamenn. Silja telur að frumvarp Sigríðar verði ekki lagt fram, að minnsta kosti ekki í vetur.

 

Kerfið ekki í stakk búið

Telur þú að ef þetta frumvarp eða annað sambærilegt næði fram að ganga, þá yrði minni ótti í samfélaginu?

„Já, og ég held að fólk vilji sjá eitthvað gert. Umfjöllun fjölmiðla síðustu mánuði og ár sýnir að kerfið er veikt. Það eru sömu einstaklingarnir sem brjóta af sér árum og áratugum saman. Áður fyrr var ekki talað um svona hluti og fólk ekki upplýst um hættuna. Í dag er umræðan til staðar en kerfið ekki í stakk búið til að taka á þessu.“

Silja segir að það muni taka stjórnmálamenn tíma að setja sig inn í málið. Þrátt fyrir að hún leggi þetta til ein standi þingflokkur Framsóknarflokksins með henni.

„Ég vona að þetta komi til umræðu í vetur, en ef ekki þá legg ég það aftur fram á næsta þingi. Best væri ef ráðuneytin sem þetta heyrir undir, félagsmála og dómsmála, legðu fram frumvarp því þá tæki það skemmri tíma.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?