Lögreglumaður frá Sauðárkróki sem dæmdur var í skilorðsbundið fangelsi eftir slagsmál í Færeyjum á laugardagskvöld er hættur störfum hjá lögreglunni að eigin ósk. Þetta staðfestir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra.
Stefán staðfestir jafnframt að atvikið hafi átt sér stað í ferð lögreglunnar á Norðurlandi vestra til Færeyja. Sá sem varð fyrir árás lögreglumannsins er ekki lögreglumaður. „Ég get í sjálfu sér lítið sagt þér þar sem þetta mál er ekki á okkar borði en maðurinn var dæmdur á laugardagskvöldið,“ segir Stefán Vagn í samtali við DV.
Lögreglumaðurinn var dæmdur í 50 daga skilorðsbundið fangelsi og þriggja ára ferðabann til Færeyja. Hann kom ásamt hópnum aftur til Íslands, nánar til tekið Akureyrar, síðdegis í gær.
Uppfært kl.12.05: Í upphafi var ranglega fullyrt að sá sem varð fyrir árásinni hafi einnig starfað sem lögreglumaður. Beðist er velvirðingar á mistökunum.