Greining frá ísraelsku hagstofunni sýnir að nú eru strangtrúaðir gyðingar 12 prósent af mannfjöldanum en 2027 verði þeir orðnir 15 prósent. Þegar vel verður komið fram á öldina, eða fram á árið 2065, gætu 30 prósent landsmanna verið strangtrúuð ef þróunin heldur áfram á þennan hátt. Ef þessi þróun gengur eftir mun það hafa mikil áhrif á ísraelskt samfélag og verða mikil áskorun, fyrst og fremst efnahagslega séð, því margir strangtrúaðir karlmenn vinna ekki heldur eyða öllum sínum tíma í trúarbragðanám. Aðeins 51 prósent strangtrúaðra gyðinga er með vinnu í Ísrael og 45 prósent strangtrúaðra fjölskyldna teljast fátækar samkvæmt opinberri tölfræði.
Strangtrúaðir ísraelskir gyðingar eignast að meðaltali sjö börn á hverja konu og er það hæsta hlutfall nokkurs þjóðfélagshóps í þróuðu ríkjunum.
En þrátt fyrir spá um að hlutfall strangtrúaðra gyðinga geti verið komið upp í 30 prósent landsmanna árið 2065 eru ekki allir sannfærðir um að svo fari. Nefnt hefur verið til sögunnar að fátækt svona stórs hluta samfélagsins hafi valdið því að bæði hið opinbera og samfélag strangtrúaðra leggi nú meiri áherslu en áður á að fá strangtrúaða karlmenn út á vinnumarkaðinn og til að stunda nám við háskóla. Þá bendir ýmislegt einnig til að sífellt fleiri yfirgefi samfélag strangtrúaðra. En það er þó nokkuð ljóst að strangtrúuðum gyðingum mun fjölga vegna hinnar háu fæðingartíðni.
Innan raða strangtrúaðra eru síðan margar mismunandi útgáfur af hvernig lifað er í samræmi við trúna, misstrangar. Hjá þeim allra strangtrúuðustu eru sjónvörp, símar og internet eitthvað sem ekki er notað og hvað þá að slík tæki fái að vera inni á heimilum þeirra. Margir strangtrúaðir viðurkenna ekki tilvist Ísraelsríkis því þeir telja að ekki megi stofna það fyrr en trúarlegur spádómur hefur ræst en hann snýst um að messías þurfi að koma fram á sjónarsviðið áður. Þá neita margir strangtrúaðir að sinna herskyldu og að greiða skatt.
Sumir sérfræðingar telja að menntun sé lausnin á þeim vanda sem Ísrael stendur frammi fyrir vegna hins vaxandi fjölda strangtrúaðra gyðinga. Það verði að koma námi, sem ekki snýr að trú, inn í skóla hinna strangtrúuðu því þá eigi þeir auðveldara með að komast út á vinnumarkaðinn. Þá eru teikn á lofti um að strangtrúaðir gyðingar, sem stunda nám við háskóla, breyti oft um hegðun þrátt fyrir að þeir yfirgefi ekki samfélag strangtrúaðra. Þeir eignast til dæmis færri börn.
Opinberar tölur sýna að fleiri strangtrúaðir stunda nú nám við háskóla en áður og læra um annað en trú sína í skólum. Þessi þróun hefur þó verið upp og ofan og skiptir þá máli hversu mikil áhrif stjórnmálaflokkar strangtrúaðra hafa hverju sinni. Til dæmis hafa þeir sterk ítök í núverandi ríkisstjórn.
Aðeins 43 prósent strangtrúaðra nota internetið.
Að meðaltali eignast hver kona 7,1 barn.
45 prósent strangtrúaðra fjölskyldna lifa undir fátæktarmörkum.
51 prósent strangtrúaðra karla vinnur en hjá konunum er hlutfallið 73 prósent.