Settu þér raunhæf markmið sem þú ræður við – Ekki stilla þér upp við vegg
Nýtt ár færir okkur möguleikann á nýju upphafi. Það er eitthvað freistandi við að núllstilla sig um áramótin og skilja slæma ávana eftir í gamla árinu og taka upp nýja og betri á því nýja. Hefja vegferð í átt að betra lífi og bættu sjálfi. Þess vegna strengjum við gjarnan áramótaheit.
Hvort heldur sem um er að ræða að koma sér í betra form, taka sig á í sambandsmálum eða fjármálum, þá er mikilvægt að falla ekki í alræmdar gildrur sem reynslan hefur sýnt að leynast víða. Ekki stilla þér upp við vegg þar sem þú ert dæmd/ur til að mistakast, heldur settu þér raunhæf markmið sem þú ræður við. Hér eru nokkur góð dæmi um áramótaheit, sem þú ættir að forðast.
Ekki gleyma þér í tölum. Ef þú setur þér afarkosti í að léttast þá getur þú lent í vandræðum. Ef þú nærð ekki markmiðum þínum eins fljótt og þú hafðir ætlað þér getur það dregið úr þér sjálfstraust og fælt þig frá verkefninu.
Annað sem mikilvægt er að hafa í huga er að ef þú byrjaðir að lyfta lóðum og hreyfa þig samhliða þessu þá munt þú missa fitu og byggja upp vöðvamassa í leiðinni. Þú gætir því þyngst eilítið enda vöðvar þyngri en fita. Í stað þess að einblína á kílógrammatölu, er mælt með að þú fylgist frekar með hvað þú missir marga sentímetra af ummáli eða hvort þú komist aftur í raunhæfa stærð af gömlum gallabuxum.
Að verða „betri“, hvort sem það er manneskja eða í einhverju, hljómar vel en getur verið dæmt til að mistakast. Sérfræðingar hafa kallað þetta miðstigs-gildruna. Áramótaheit um að verða betri, heilbrigðari, duglegri o.s.fv. eru dæmi um þetta. Þetta er óljóst og þú átt á hættu að vita ekki hvenær þú hefur gert nóg til að ná markmiði þínu. Ef þú vilt til dæmis vera „betri vinur/vinkona“ á nýju ári, settu þér frekar það markmið að skipuleggja fleiri samverustundir eða gera eitthvað fallegt fyrir vin þinn eða vinkonu. Þá ertu komin/n með eitthvað mælanlegt sem þú getur hakað við á listanum þínum.
Margir af vinsælustu megrunarkúrum dagsins í dag snúast um að taka alfarið út kolvetni eða fitu úr mataræðinu. Slíkar öfgar ber að varast. Við þurfum þetta allt. Kolvetni, prótín og svokallaða góða fitu til að koma okkur í form og byggja upp heilbrigðan líkama. Með því að taka alfarið út kolvetni ertu að svipta líkamann mikilvægum orkugjafa. Í stað þess að kippa kolvetnum og fitu alfarið út, kynntu þér frekar hvernig þú tekur inn góð kolvetni og góða fitu og forðastu annað.
Það hljómar vel og skipulag er nú einu sinni jákvæður eiginleiki að flestra mati. En þetta markmið er óljóst og víðtækt. Að koma skipulagi á líf sitt er enda ansi metnaðarfullt verkefni. Sérfræðingar ráðleggja fólki að hólfa markmiðið niður í fleiri og smærri einingar í stað þess að setja áramótaheitið yfir líf sitt eins og stóra regnhlíf. Smættuð markmið í þessa veru geta verið að þrífa, taka til í og koma skipulagi á einn skáp á heimilinu í viku. Brellan er sem fyrr að setja tiltekið markmið sem er nógu raunhæft til að ná svo þú sjáir árangur.
Margir telja að bara það að eiga kort í ræktina muni veita þeim þann innblástur sem þarf til að raunverulega mæta í ræktina og hreyfa sig reglulega – jafnvel þótt þeir hafi óbeit á ræktinni. Sérfræðingar vara þó við því að það er nógu erfitt að fylgja æfingarprógrammi án þess að bæta því ofan á að þurfa að draga sjálfan sig í ræktina án þess að vilja vera þar.
Lykillinn er að finna eitthvað við hæfi sem hentar þínu áhugasviði. Einhverja hreyfingu eða æfingu sem hjálpar þér að styrkjast og líða betur í eigin líkama. Þú ert mun líklegri til að æfa reglulega ef þú hefur gaman af því sem þú ert að gera. Það getur verið allt frá því að fara á skauta, hjóla, ganga, synda eða dansa. Margt sem kostar lítið eða hreinlega ekkert.
Þegar kemur að því að setja þér æfingamarkmið, ekki gleyma að taka með í reikninginn núverandi líkamlegt ástand þitt. Sérfræðingar taka sem dæmi, ef þú getur vart gengið kílómetra án þess að blása eins og hvalur á þurru landi, ekki strengja áramótaheit um að hlaupa maraþon. Byrjaðu smátt og hlustaðu á líkama þinn í markmiðasetningu. Að vinna sig upp úr sófanum upp í 5 kílómetra getur verið góð byrjun fyrir þá sem vilja byrja að hlaupa. Ef þú ætlar þér of mikið áttu alltaf á hættu að ná ekki háleitum markmiðum og þar með missa áhugann til lengri tíma. Og það sem verra er, átt á hættu að slasa þig.
Ef þú átt óuppfyllt áramótaheit frá því á síðasta ári, farðu varlega í að endurnýja þau fyrir það næsta. Mælt er með að þú spyrjir þig að því hvort þú ætlir þér raunverulega að framkvæma þau núna eða hvort þú sért aðeins að stilla þér upp til að vanrækja þau eða mistakast á ný. Þetta á sérstaklega við um áramótaheit sem þú hefur verið að vinna með mörg ár í röð. Taktu þér frekar pásu og einbeittu þér að öðru ef þú hefur ekki undirbúið þig vel og finnur ekki fyrir hvatningunni og viljanum til að klára málið.
Hætta að drekka kaffi, ekki horfa á sjónvarpið, forðast að borða eftirrétti. Stundum snýst þetta bara um orðalag áramótaheita. Með því að taka neikvæða afstöðu til einhvers getur gert þér erfiðara um vik að ná settu marki. Þegar þú orðar markmið þín á neikvæðan hátt þá ertu að beina allri athygli þinni og orku á það sem þú ert að reyna að forðast, sem veitir þér ekki þá hvatningu eða leiðsögn sem þú þarf. Mælt er með að orða markmið sín á jákvæðan hátt. „Vera nógu heilbrigð/ur til að geta hlaupið 5 kílómetra“ eða „Byrja hvern dag á vatnsglasi“ – þetta beinir athygli þinni og vegferð áfram veginn.