Halldór Baldursson ræðir um skopteikningar, pólitíska rétthugsun, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Konung flónanna
Flestir Íslendingar kannast við pólitískar skopteikningar Halldórs Baldurssonar. Í rúman áratug hefur spéspegill hans birst daglega í nokkrum stærstu dagblöðum landsins og gefið þjóðinni færi á að hlæja að sjálfri sér og ráðamönnum á einhverjum mestu ólgutímum í sögu lýðveldisins.
Það þekkja færri manninn á bak við myndirnar, hinn lágmælta og glottandi skopmyndateiknara sem er alinn upp á fótboltamyndum og kínverskum kommúnistaáróðri, sem trúir á bernskan boðskap barnaævintýra en hefur lúmskt gaman af gamaldags karlrembugríni.
DV hitti Halldór og spjallaði um skopteikningar, pólitíska rétthugsun, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Konung flónanna – nýútkomið skopmyndasafn hans.
„Ég er svolítið hræddur um að þessi mikla neikvæðni og ótti í samfélaginu eitri út frá sér. Þessi ótti er drepandi, hann elur á heimsku og skapar skrímsli eins og Trump og annað öfgafólk. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að við búum ekki við eitthvað hörmungarástand, við búum í býsna góðu samfélagi. Það þarf að veita passlegt aðhald og reyna að gera samfélagið aðeins betra – en það er hægt að gera samfélagið aðeins betra og fallegra, eins og er alltaf verið að boða í öllu barnaefni: Dýrunum í Hálsaskógi eða Lion King. Það er þessi bernski boðskapur sem fólk tekur ekki rassgat mark á. En ég held að það sé allt í lagi að reyna að vera bjartsýnn.“
Hefur þú fengið miklar reiðiöldur yfir þig vegna teikninga sem fólki hefur mislíkað?
„Nei, aldrei. Kannski er það vegna þess að mín nálgun er ekki mjög „agressíf.“ Ég reyni yfirleitt að hafa myndirnar þannig að það hafi allir útgönguleið úr þeim. Ég er ekki að reyna að drepa í fólki eða ausa yfir það hatri. Ég er auðvitað að vinna fyrir Fréttablaðið sem er mjög „mainstream“ og er dreift í öll hús. Það er kannski ekki alveg staðurinn fyrir grófan Charlie Hebdo-húmor – afhausaðan Múhameð á forsíðunni eða álíka,“ segir Halldór.
Áttu almennt í einhverju samtali við ritstjórana þína um viðfangsefni skopmyndanna, eða hefur þú lent í því að ritstjóri stöðvi teikningu sem þú ætlar að birta?
„Nei. Þetta er svolítið öðruvísi en margir ímynda sér. Ég hef unnið undir hátt í 20 ritstjórum og enginn þeirra hefur skipt sér af því sem ég hef gert. Þegar ég var á Morgunblaðinu héldu margir að Davíð Oddsson væri að hringja og skipa mér að teikna hitt eða þetta, en það var aldrei þannig. Það var bara af eigin hvötum sem ég ákvað að fara yfir á Fréttablaðið. Ég held að þetta eigi líka við um aðra skopmyndateiknara hér á landi – jafnvel þá sem eru umdeildari.“