National Board of Review í Bandaríkjunum veitti nýlega kvikmyndaverðlaun sín. Kvikmyndin Manchester by the Sea var valin besta myndin en leikstjóri hennar er Kenneth Lonergan. Leikarinn Casey Affleck var valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í myndinni. Myndin hlaut tvenn önnur verðlaun, fyrir handrit og Lucas Hedges fékk verðlaun fyrir aukahlutverk í myndinni. Manchester by the Sea segir frá manni sem missir bróður sinn og tekur að sér unglingsson hans.
Barry Jenkins var valinn besti leikstjórinn fyrir Moonlight og Naomie Harris besta aukaleikkonan. Moonlight fjallar um samkynhneigðan svartan dreng sem elst upp í fátækt í Miami. Myndin sópaði til sín verðlaunum á Gotham Independent kvikmyndahátíðinni sem haldin var nýlega. Amy Adams var valin besta leikkonan fyrir frammistöðu sína í vísindatryllinum Arrival.
Verðlaun National Board of Review þykja oft gefa vísbendingu um tilnefningar til Óskarsverðlauna. Casey Affleck, sem er bróðir Ben Affleck, þykir einmitt líklegur til að hreppa tilnefningu og hið sama má segja um aðstandendur Moonlight.