fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Leikdómur: Núna 2019-„Þrjú verk ólík innbyrðis, en undirliggjandi óhugnaður í þeim öllum“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 6. febrúar 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karítas Hrundar Pálsdóttir meistaranemi í ritlist skrifar í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, leikdóm um Núna 2019, sem sýnt er í Borgarleikhúsinu.

Borgarleikhúsið endurtekur verkefnið NÚNA frá 2013 og kynnir fyrir landsmönnum þrjú ung leikskáld, þau Hildi Selmu Sigbertsdóttur, Þórdísi Helgadóttur og Matthías Tryggva Haraldsson í NÚNA 2019. Leikskáldin sömdu hvert fyrir sig um þrjátíu mínútna langt verk og unnu það áfram í samvinnu við dramatúrga Borgarleikhússins og leikstjórann, Kristínu Jóhannesdóttur. Afraksturinn eru verkin SumóÞensla og  Stóri Björn og kakkalakkarnir.

Sumó

Sumó, eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur, fjallar um hjónin Rannveigu og Axel (Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Haraldur Ari Stefánsson) sem leigja sér bústað í von um að eiga rómantíska stund saman. Kvöldið tekur óvænta stefnu þegar Edda (Vala Kristín Eiríksdóttir), ung kona úr næsta bústað, ryðst yfir til þeirra með öll sín vandamál. Einar (Hannes Óli Ágústsson), kærastinn hennar, hefur skilið hana eina eftir og keyrt í bæinn. Aðstæðurnar verða smátt og smátt furðulegri, sjónarhornið færist til Axels en hann á, líkt og áhorfendur, sífellt erfiðara með að átta sig á því hvað er satt og hvað er logið, hvað er alvara og hvað er leikur einn. Ólíkum sjónarhornum eru fléttað listilega vel saman þó endirinn sé skyndilegur og skilji áhorfendur eftir í lausu lofti, óvissa um það hvort Axel sé virkilega á geðdeild eða hvort hann sé bara enn í sumarbústaðnum. Blekkingin skapar hugrenningatengsl við verkin Fólk, staðir og hlutir eftir Duncan Macmillan og Faðirinn eftir Florian Zeller en þess má geta að Kristín Jóhannesdóttir leikstýrði einnig því síðarnefnda (í uppsetningu Þjóðleikhússins 2017). Þar sem sögusvið Sumó er sumarbústaður og heitur pottur hluti af sviðsmynd verksins er ekki annað hægt en að minnast líka verksins Himnaríki eftir Árna Ibsen. Sumó skortir örlítinn frumleika en úrvinnsla hugmyndarinnar er góð, persónurnar eru sannfærandi og samskipti þeirra marglaga. Góð leikstjórn og góður leikur skiptu þar sköpum.

Þensla

Þensla, eftir Þórdísi Helgadóttur, fjallar um hjónin Agnesi og Egil (Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Hannes Óli Ágústsson) sem eiga óuppgerða fortíð; þau hafa ekki unnið úr  skyndilegum og harmrænum dauða vinkonu Agnesar. Kvöld eitt býður Egill, ungu listamönnunum Marínu og Daníel (Ebba Katrín Finnsdóttir og Haraldur Ari Stefánsson) heim að sjá „dýrið“. Í ljós kemur að „dýrið“ er egg, nokkur krókódílsegg, sem Agnes geymir í hitakassa í stofunni. Verkið tekur fyrir stöðu mannskepnunnar í dýraríkinu og þann kvíða og sektarkennd sem því getur fylgt að vera breysk manneskja sem hendir plasti í sjóinn og kaupir vörur unnar af þrælabörnum í útlöndum. Agnes vill flýja raunveruleikann; hún þráir að verða krókódíll líkt og Yeong-Hye í Grænmetisætunni eftir Han Kang þráir að breytast í tré. Þensla býr yfir sterkum höfundareinkennum Þórdísar en í smásagnasafni hennar Keisaramörgæsir (2018) notar hún einnig dýr og náttúruna til að varpa ljósi á stöðu mannsins í nútímanum. Þetta gerir hún með heillandi töfraraunsæi þar sem ekki er allt sem sýnist og allt getur gerst. Slöngumynstraður kjóll Agnesar og ýmis skinn sem liggja á gólfinu ýta undir dýraþemað í uppsetningunni. Í loftinu eru hitalampar og á sviðinu er rauð, hlý birta. Sem mótvægi við heimsendaspá Agnesar tekur Daníel sig til og flytur ræðu. „Manneskjan, what a concept,“ er meðal þess sem hann segir. Og svo er skálað.

Stóri Björn

Stóri Björn og kakkalakkarnir, eftir Matthías Tryggva Haraldsson, fjallar um mann (Hannes Óli Ágústsson) sem glímir við svefnvandamál, óhugnanlega blauta drauma og klámfíkn. Verkið er súrrealískt. Það fjallar á óröklegan hátt um leyndar óskir og hvatir mannsins. Aðalpersónan er á mörkum draums og vöku, endursegir martraðir sínar og berst við kakkalakkaskrímsli (Haraldur Ari Stefánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir) með hjálp ofurhetjanna Konu og Konu 2 (Ebba Katrín Finnsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir). Matthías Tryggvi leikur sér með þá hugmynd að konur séu annað hvort gyðjur eða hórur. Konurnar tvær eru klámiðnaðurinn holdi klæddur en gefa manninum, þegar þau þrjú hafa í sameiningu sigrast á kakkalökkunum, þau hollráð að lifa lífinu en vera ekki fastur á bak við tölvuskjá að horfa á klám. Konurnar eru þannig sýndar á írónískan hátt sem bjargvættir karlmannsins. Kakkalakkarnir eru forvitnilegar svartklæddar verur með typpi á kollinum í stað fálmara. Þeir eru auk þess með mislit augu og skapa þannig hugrenningatengsl við klæðnað grímuklædda trommuleikarans í hljómsveitinni Hatari sem Matthías Tryggvi er meðlimur í. Kakkalakkarnir eru ágengir, spyrja margra spurninga og vilja borða allt. Endurteknar spurningar þeirra: „Er þetta …? Namm!“ og „Hvað er þetta?“ minntu á „Af hverju“-frasa rassálfana í Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren. Konurnar tvær töluðu með hrynjandi sem minnti á ljóðaflutning og þar með, í sínu ævintýralega samhengi,  á sýninguna Tvískinnungur eftir Jón Magnús Arnarsson, ljóðaslammara. Verkin Stóri Björn og Tvískinnungur eiga það auk þess sameiginlegt að vera grótesk.

Undirliggjandi óhugnaður

Þrátt fyrir að verkin þrjú séu innbyrðis mjög ólík er undirliggjandi óhugnaður í þeim öllum. Áhugavert er að í öllum verkunum er komið inn á samskipti kynjanna og femínisma, með einum eða öðrum hætti. Í Sumó og Þenslu er komið inn á hjónabandserjur og í Þenslu og Stóra  Birni er unnið með mörk mennsku og dýra, samanber krókódílana og kakkalakkana. Sviðsmyndin er vel heppnuð. Snúningssvið gerir það að verkum að áhorfendur fá að sjá ólík sjónarhorn. Leikurinn er almennt sannfærandi og mínímalísk leikmynd og hversdagslegir búningar í bland við mjög skrautleg gervi styðja við upplifunina.

Greinin birtist fyrst í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024