Afkoman batnaði um 600 milljónir á milli ára
Afkoma þriggja félaga Helga Magnússonar, fjárfestis og fyrrverandi formanns Samtaka iðnaðarins, var mjög góð á árinu 2015 og nam hagnaður þeirra eftir skatta samtals 838 milljónum króna. Helgi á tvö félög, Hofgarða og Varðberg, að öllu leyti en eignarhlutur hans í Eignarhaldsfélagi Hörpu nemur 56 prósentum. Afkoma félaganna var mun betri en árið 2014 þegar hagnaður þeirra var samtals 242 milljónir.
Félögin fjárfesta aðallega í skráðum hlutabréfum, þar sem mestu munar um eignarhluti í Marel og N1, en starfsemin gekk sérstaklega vel á síðasta ári. Heildareignir félaganna þriggja í árslok 2015 námu um 2,6 milljörðum króna en skuldir voru 800 milljónir. Bókfært eigið fé var því jákvætt um 1,8 milljarða. Á árinu 2015 greiddi Eignarhaldsfélag Hörpu 50 milljónir króna í arð til hluthafa. Enginn arður var greiddur hjá Hofgörðum og Varðbergi.
Í samtali við DV sagði Helgi Magnússon að afkoma þessara félaga ráðist aðallega af því hvernig gangi í hlutabréfafjárfestingum. Afkoman í fyrra hafi verið óvenjugóð en þróun hlutabréfaverðs sé hins vegar almennt mun lakari á þessu ári. Hann bendir á að hlutabréfaviðskipti séu sveiflukennd í eðli sínu og það komi glögglega í ljós þegar árin 2014, 2015 og 2016 eru borin saman.