„Brexit-atkvæðagreiðslan í Bretlandi ætti að vera aðvörun til evrópskra stjórnmálamanna um að það er hættulegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál,“ sagði hann nýlega en hann og ríkisstjórn hans hafa undanfarið þurft að glíma við mótmæli Gulu vestanna sem vilja einmitt taka upp lýðræðislegra ferli þegar ákvarðanir eru teknar til að gefa almenningi færi á að tjá sig um málefni líðandi stundar.
„Áhrif voru höfð á þjóðaratkvæðagreiðsluna utan frá af því sem við köllum nú falsfréttir. Fyrst segir maður hvað sem er og síðan segir maður að nú verðið þið að bjarga ykkur sjálf,“ sagði Macron á löngum fundum með 600 frönskum borgar- og bæjarstjórum nýlega.
„Í stuttu máli sagt er logið að fólki. Það tók ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ekki hægt að standa við. Síðan er bara að óska þjóðkjörnum fulltrúum góðs gengis við að hrinda óframkvæmanlegum hlut í framkvæmd.“
Orð forsetans koma í miðri umræðu um hvort evrópsk lýðræðisríki eigi oftar að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru einmitt popúlistaflokkar, sem eru víða á mikilli siglingu, sem hafa sett fram kröfur um slíkt. Eitt af því sem popúlistaflokkar á báðum vængjum stjórnmálanna eiga sameiginlegt er að þeir vilja koma á meira beinu lýðræði.
En valdhafar í Evrópu eru ekki ýkja hrifnir af þjóðaratkvæðagreiðslum. Þeir hallast flestir að fulltrúalýðræði og telja að aðeins eigi að grípa til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar gera á breytingar á stjórnarskrá og kannski í einstökum öðrum tilfellum, en annars eigi að forðast þær.
Í Hollandi voru lög um leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslur felld úr gildi á síðasta ári af ótta við að þær gætu grafið undan lýðræðinu. Áhyggjur Hollendinga, sem og ýmissa annarra, eru að í framtíðinni muni myndast pólitískur þrýstingur um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Hollendinga að ESB.
Í rannsókn bandarísku stofnunarinnar Pew Institute, sem var birt í október 2017, um afstöðu Evrópubúa til lýðræðis kom fram að helmingur aðspurðra í tíu ríkjum sagðist ósáttur við hvernig lýðræðið virkar í heimalandi þeirra. Um 70 prósent aðspurðra sögðu að þjóðaratkvæðagreiðslur væru frábært verkfæri í lýðræðisríkjum.
Fimmstjörnuhreyfingin á Ítalíu hefur gert beint lýðræði að einu helsta stefnumáli sínu og talsmenn Gulu vestanna í Frakklandi telja að þjóðaratkvæðagreiðslur séu áhrifaríkt vopn gegn hinni pólitísku elítu í París. Eins og Gulu vestin á Fimmstjörnuhreyfingin rætur að rekja til mótmælagöngu á landsbyggðinni, árið 2009. Það var áður en hreyfingin fór að nota samfélagsmiðla til að vekja athygli á sér og áður en hún hélt innreið sína í borgir og bæi. Luigi Di Maio, leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar, styður Gulu vestin, og segir samkvæmt umfjöllun Le Monde að „hreyfingar, sem styðja beint lýðræði, séu að skapa nýja Evrópu“.
En það er rétt að hafa í huga að í Ungverjalandi og Póllandi, þar sem popúlistahreyfingar eru við völd, eru ekki fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur en áður eða annars staðar. Það má því álykta að þegar popúlistahreyfingar eru komnar til valda og sitja öruggar á valdastóli þá sé engin hvatning til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna.
Ef tekið er mið af orðum Macron þá er að heyra að hann vilji halda þjóðaratkvæðagreiðslum í algjöru lágmarki. Aðrir franskir stjórnmálamenn hafa varað við svissneska módelinu, en í Sviss eru umdeild mál send í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur ef ákveðið hlutfall kjósenda krefst þess. Frönsku stjórnmálamennirnir segja að hætta sé á að þjóðaratkvæðagreiðslurnar fari að snúast um eitthvað allt annað en lagt var upp með. En þeir segja einnig að það sé hættulegt að láta þjóðaratkvæðagreiðslu ráða úrslitum í viðkvæmum málum á borð við málefni innflytjenda, dauðarefsingar, fóstureyðingar, hjónabönd samkynhneigðra eða aðild að ESB.
Frakkar hafa tvisvar efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB og stjórnvöld vilja ekki fara í þá þriðju. Sú kenning hefur verið sett fram að hin pólitíska elíta í Frakklandi treysti kjósendum ekki, þeir séu taldir vera þröngsýnir bændur. Aðrir eru algjörlega á öndverðum meiði og segja að hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur séu „hættulegar“. Þær séu tálsýn sem endi með miklum vonbrigðum í framtíðinni eða séu bara hreint eitur fyrir lýðræðissamfélögin í Evrópu.