fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Pressan

Börn nasistanna – Hvað varð um þau eftir voðaverkin?

Pressan
Sunnudaginn 8. október 2023 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Feður þeirra eru þekktir fyrir að vera meðal grimmustu manna sem hafa nokkru sinni gengið um hér á jörðinni. Þeir drekktu Evrópu í blóði og reyndu að útrýma heilum þjóðfélagshópi, gyðingum með Helförinni. Mörgum kann því að þykja ótrúleg þversögn fólgin í að þeim var lýst sem ástríkum fjölskyldumönnum sem elskuðu fjölskyldur sínar og vildu allt fyrir börn sín gera. Hér er verið að tala um þá nasista sem voru fremstir í flokki þýskra nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Að stríði loknu voru margir þeirra dæmdir til dauða og teknir af lífi og aðrir frömdu sjálfsvíg.

En hvernig reiddi börnum nasistanna af að stríði loknu? Adolf Hitler var barnlaus, kannski sem betur fer, og Josep Göbbels myrti börnin sín. En meirihluti barna nasistanna lifði stríðið af og þau lifðu áfram að því loknu og þurftu að burðast með þá þungu byrði sem það hlýtur að hafa verið að hafa átt feður í helstu áhrifastöðum Þriðja ríkisins. Börnin gátu auðvitað ekkert að þessu gert, þau réðu ekki skoðunum eða störfum feðra sinna, en samt sem áður hafði þetta áhrif á þau. Sum þeirra hurfu sporlaust, önnur gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að losna undan ættarnöfnum sínum og því sem þau tengdust. En það eru einnig dæmi um að börn háttsettra nasista hafi orðið gegnheilir nasistar og aðhyllst nasisma og hafi barist fyrir þeim hugsjónum og stefnu sem feður þeirra héldu í heiðri.

 

Himmler-fjölskyldan
Gudrun til vinstri.

Vildi hreinsa nafn föður síns

Gudrun Himmler fæddist 1929 í München. Faðir hennar var Heinrich Himmler sem var einn valdamesti maður Þriðja ríkisins en hann var yfirmaður hinna alræmdu SS-sveita Hitlers. Þegar stríðinu lauk ætlaði Himmler að gefa sig fram við Bandamenn en þegar breskir hermenn handtóku hann í maí 1945 framdi hann sjálfsvíg með eitri. Gudrun og móðir hennar voru handteknar af breskum hermönnum og hafðar í haldi. Gudrun sagði síðar að þetta hefði verið „erfiðasti tími lífs hennar“. Gudrun og móðir hennar, Margarete, áttu í ástríku og góðu sambandi við Himmler. Að stríði loknu ákvað Gudrun að hreinsa nafn föður síns af öllum ásökunum og „misskilningi“. Hún er sögð hafa haldið sig til hlés og lifað rólegu lífi en tók samt sem áður virkan þátt í starfsemi samtakanna „Stille Hilfe“ sem aðstoða gamla nasista í neyð. Hún var meðal stofnenda samtakanna „Wiking-Jugend“ árið 1952 en fyrirmynd þeirra var Hitlersæskan svokallaða. Gudrun Himmler er oft hyllt á samkomum nýnasista í Þýskalandi og fór oft á árlega samkomu SS-hermanna í Klagenfurt í Austurríki. Hún er sögð hafa elskað föður sinn til síðasta dags og hafi alltaf haldið því fram að Bretar hafi myrt hann, hann hafi ekki svipt sig lífi. Hún giftist blaðamanninum Wolf-Dieter Burwitz og tók upp eftirnafn hans. Hún lést 24. maí 2018.

 

Edda Göring
Eina dóttir leiðtoga Luftwaffe.

Dómritari í München

Edda Göring fæddist 1938. Faðir hennar var Hermann Göring og móðir hennar var leikkonan Emmy Göring. Adolf Hitler var guðfaðir hennar. Hermann Göring var einn af æðstu leiðtogum nasista og var Edda eina barn hans. Að stríði loknu var Eddu og móður hennar komið fyrir í fangabúðum. Hún menntaði sig síðar sem dómritari og settist að í München. Í mörgum viðtölum hefur hún sagt að eftirnafnið hafi komið henni vel í gegnum lífið. Hún fékk meðal annars miða á frumsýningar á óperur í Bayreuth. Hún giftist aldrei en bjó með blaðamanninum Gerd Heidemann. Hann hafði mikinn áhuga á nasistatímanum og átti meðal annars snekkju Göring, Carin II. Edda er nú á eftirlaunum og býr ein. Hún segist bera hlýjar tilfinningar til föður síns.

„Faðir minn hugsaði vel um mig. Ég á bara góðar minningar um hann,“ sagði hún eitt sinn í viðtali. Í sjónvarpsviðtali árið 1980 sagðist hún vera pólitískt „brennt barn“ og að henni sé meinilla við allar öfgar, hvort sem þær koma frá hægri eða vinstri.

 

Hilde Schramm
Virk í stjórnmálum.

Á þing fyrir Græningja

Albert Speer yngri fæddist 1934. Hann var sonur Alberts Speer sem var aðalarkitekt Hitlers í upphafi en varð síðan áhrifamaður í stjórn nasista og stýrði vopnaframleiðslu Þriðja ríkisins. Albert yngri menntaði sig sem arkitekt og stofnaði eigið fyrirtæki sem var með viðskiptavini um allan heim. Hann reyndi að aðskilja sig frá svartri fortíð föður síns.

„Þetta var hans heimur, ekki minn,“ sagði hann um föður sinn. Albert yngri lést í september 2017. Hans er minnst sem eins fremsta arkitekts Þýskalands.

Hilde Speer (nú Schramm) fæddist 1936 og var sömuleiðis dóttir Alberts Speer eldri sem eignaðist sex börn. Hilde segist ekki muna eftir að hafa hitt Adolf Hitler, sem hún gerði. Hún sagði eitt sinn að hún hefði örugglega ýtt þeirri minningu til hliðar ómeðvitað. Að stríði loknu stundaði hún nám í Bandaríkjunum og starfaði sem félagsfræðingur. Hún hefur látið að sér kveða í stjórnmálum fyrir flokk Græningja og sat meðal annars á þingi Berlínar. Hún hefur látið að sér kveða í að aðstoða fórnarlömb nasista, sérstaklega gyðinga, og segist hafa lagt fortíð föður síns að baki sér.

„Við sem lifðum af erum saklaus. Við erfðum ekki sökina,“ sagði hún eitt sinn.

 

Rolf Mengele
Sonur „Engils dauðans.“

Heimsótti föður sinn í Brasilíu

Rolf Mengele fæddist 1944. Faðir hans var Joseph Mengele sem stýrði óhugnanlegum læknisfræðilegum tilraunum á gyðingum í Auschwitz. Mengele eldri flúði til Suður-Ameríku eftir stríð ásamt fleiri nasistum. Rolf ólst upp í Vestur-Þýskalandi en vissi að sögn að faðir hans hélt sig í Brasilíu. Hann heimsótti hann þar 1977.

„Hann var mjög snortinn. Augu hans voru tárvot. Hann var líka mjög stoltur því hann vissi að það vildu ekki allir í fjölskyldunni koma og heimsækja hann. Hann kom fram við mig eins og hugrakkan hermann,“ sagði Rolf í sjónvarpsviðtali 1980 og sagði að hann hefði átt erfitt með að vita hvaða tilfinningar hann ætti að bera til föður síns.

„Hann var faðir minn, en síðan voru ásakanirnar á hendur honum og þessar hræðilegu myndir úr Auschwitz. Mér létti mikið þegar málið leystist,“ sagði Rolf í sjónvarpsviðtali 1980, en þar átti hann við að faðir hans drukknaði í Brasilíu 1979. Rolf fór í lögfræði og starfar sem lögmaður og hefur skipt um eftirnafn.

Greinin birtist áður 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Neyddu drengi til að brjóta kynferðislega á smábarni

Neyddu drengi til að brjóta kynferðislega á smábarni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Piers Morgan biður grenjandi vinstri menn vinsamlegast um að halda kjafti – „Ég er kominn með nóg af þessu“

Piers Morgan biður grenjandi vinstri menn vinsamlegast um að halda kjafti – „Ég er kominn með nóg af þessu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn