Eftir því sem hernaðarsérfræðingurinn Aleksej Leonkov segir þá getur ein Sarmat kjarnorkueldflaug tortímt 34 til 38 milljónum manna. Í vikublaðinu Zvezda talar hann sjálfur um Bandaríkjamenn og má velta því fyrir sér hvort hér sé um aðvörun að ræða til Bandaríkjamanna. Eftir því sem hann segir þarf aðeins 10 Sarmat eldflaugar til að tortíma Bandaríkjunum.
En ekki nóg með það segir hann því ef Pútín ýtir fyrstur á hinn fræga og skelfilega „rauða hnapp“ þá eru Bandaríkjamenn varnarlausir. Hann segir að óvinir Rússlands verði að átta sig á að ekkert geti stöðvað Sarmat. Hann segir einnig að Bandaríkin geti ekki sigrað kjarnorkustríð við Rússa í kjölfar tilkomu Sarmat.
Þetta nýja ofurvopn Rússa hefur vakið áhyggjur í bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Vopnið er miklu nákvæmara en forverar þess og flýgur á margföldum hljóðhraða en Pútín hefur stært sig af að það fljúgi á 20 földum hljóðhraða og að eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna geti ekki stöðvað Sarmat.