Á aðfangadag árið 2002 hvarf Laci Peterson. Hún var komin nærri átta mánuði á leið og átti að eiga þann 10. febrúar 2003. Hún og maðurinn hennar, Scott, höfðu ákveðið að sonurinn væntanlegi ætti að heita Conner. Þau áttu heima í úthverfi Modesto í Kaliforníufylki Bandaríkjanna og höfðu komið sér vel fyrir. Scott var nýorðinn þrítugur og vann við að selja áburð í heildsölu. Hún var 27 ára garðyrkjufræðingur. Ekkert virtist vera að og því vissi Sharon Rocha, móðir Laci, að eitthvað væri að þegar Scott hringdi í hana hálf sex á aðfangadag og sagði henni að Laci væri týnd.
Foreldrar Laci gerðu lögreglu strax viðvart og voru þeir fljótir á vettvang. Al Brocchini rannsóknarlögreglumaður sá strax að eitthvað var að og var fljótur að kalla til leitarlið. Venjulega þurfa að líða nokkrir dagar áður en leit hefst en sökum ástands Laci ákvað Al að sleppa biðinni. Lögregla, vinir, nágrannar og fjölskylda fóru strax snemma um kvöldið út að leita að Laci.
Notast var við þyrlur, leitarhunda, kafara og hestamenn til að kemba öll svæði í kringum Modesto áður en haft var samband við nærliggjandi sýslur. Ekkert bólaði á Laci. Al Broccini sagði á fréttamannafundi sem haldinn var skömmu síðar:
Þetta er algjörlega úr takti við eitthvað sem hún myndi gera.
Scott Peterson kynntist Laci Rocha þegar hann þjónaði á veitingastað samhliða námi í búfræði. Þau trúlofuðust í desember 1996 og giftu sig nokkrum mánuðum síðar. Hún vildi eignast börn sem fyrst en Scott vildi bíða, hann lét undan síðla árs 2000 en illa gekk í fyrstu. Svo í maí 2002 varð Laci loks ólétt.
Kvöldið áður en Laci hvarf kom hálfsystir hennar Amy í heimsókn til að klippa hárið á Scott. Síðar um kvöldið á Þorláksmessu ræddi Laci í símann við móður sína áður en hún fór að sofa. Morguninn eftir fann nágranni svo hund þeirra hjóna labbandi um hverfið með skítuga ól, nágranninn hleypti honum inn í bakgarðinn þeirra þar sem hann var handviss um að Laci var heima.
Á Jóladag var allt komið á fulla ferð í leitinni að Laci, 25 þúsund dollarar voru í boði fyrir þann sem gat gefið upplýsingar um hvar mætti finna hana. Heimasíðan lacipeterson.com var sett í loftið og yfir 1500 sjálfboðaliðar hjálpuðust að við að setja upp dreifimiða. Málið var ekki enn komið í fjölmiðla en fljótlega fóru allir stóru miðlarnir í Bandaríkjunum og víðar að fjalla um málið. Leiddi það einnig til gagnrýni á meintan rasisma bæði hjá lögreglu og fjölmiðlum þar í landi þar sem óvíst hefði verið að viðbrögðin hefðu verið þau sömu og ef um þeldökka konu hefði verið um að ræða.
Scott vildi lítið tjá sig við blaðamenn og gekk m.a. af blaðamannafundi þegar hann var spurður hvort hann ætti einhvern þátt í hvarfi konu sinnar. Fjölskylda Laci hélt fram sakleysi hans og sagði slíkar vangaveltur vera óviðeigandi. Lögreglan gerði ráð fyrir öllum möguleikum og sagði Scott ekki vera undir neinni sérstakri rannsókn enda tók hann þátt í leitinni að Laci á hverjum einasta degi.
Það var samt alltaf eitthvað við hegðun hans sem lögreglumönnunum fannst undarlegt – í byrjun janúar hitti lögreglumaður hann og tjáði honum að hafin væri leit að Laci í Washington-fylki. Scott byrjaði að hlægja.
Þann 28. janúar 2003 mætti Scott í þátt Diane Sawyer þar sem hann var spurður út í samband sitt við Laci og virtist það í fyrstu styrkja stöðu hans sem góður eiginmaður sem þráði ekkert heitar en að finna konuna sína.
Fljótlega spurðist það út að hann hefði nú haldið framhjá Laci á einum eða öðrum tímapunkti.. Það var svo ekki fyrr en í febrúar 2003 að kona að nafni Amber Frey hafði samband við lögreglu og sagðist hafa átt í ástarsambandi við Scott.
Scott á að hafa kynnst henni í október 2002 og sagt henni að hann væri nýlega orðinn ekkill. Sama dag hætti fjölskylda Laci að styðja við hann og öll augu lögreglunnar voru á Scott. Það virtist sem allt sem hann sagði væri lygi. Hann sagðist vera að bíða eftir að hún kæmi heim, samt var hann að reyna að setja húsið á sölu. Scott sagðist í fyrstu hafa farið í golf á aðfangadag en hann var ekki alveg viss um hvaða golfvöll hann hefði verið á eða hvort hann hefði farið með eigin kylfur eða ekki. Hugsanlega gæti hann hafa ruglast vegna álagsins af hvarfi Laci eða var hann kannski að gera eitthvað annað þann dag?
Hann þóttist ekki þekkja Amber Frey þangað til lögreglumennirnir réttu honum ljósmynd af þeim saman. Eftir að hafa verið tjáð að engar upptökur af neinum golfvelli sýndu hann vera í golfi þann dag þá mundi hann skyndilega að hann hefði farið að sigla á aðfangadag. Kafarar voru sendir á vettvang í höfnina í Berkeley þar sem Scott sagðist hafa verið daginn sem Laci hvarf.
Lögreglan leitaði þá til Amber og bað hana um að taka upp öll símtöl sem hún átti við Scott. Einn rannsóknarlögreglumaður hafði á orði að hann hefði aldrei á ævinni heyrt neinn ljúga jafn mikið og vel. Scott hélt áfram að leika hlutverk ekkilsins þegar hann hitti Amber og kom með hreint út sagt ótrúlegar afsakanir þegar hann var að eyða tíma með fjölskyldu Laci. Þegar hann var við bænastund ásamt íbúum Modesto þá sagði hann við Amber að hann væri í París að skemmta sér.
Þann dag fannst látið fóstur á ströndinni við San Fransisco-flóa, norðan við höfnina í Berkeley þar sem Scott hafði verið að sigla á aðfangadag. Daginn eftir fannst svo búkur af konu, á vantaði hendurnar, fæturna og höfuðið. Krufning gat ekki staðfest dánarorsök en búið hafði verið að brjóta í henni rifbein áður en henni var kastað í sjóinn. Nokkrum dögum síðar fékkst það staðfest, þetta var Laci og Conner.
Þann 18. apríl var gefin út handtökuskipun á hendur Scott Peterson. Eftir töluverða leit fannst hann á bílastæði við golfvöll nærri La Jolla í Kaliforníu. Hann var búinn að lita hárið ljóst og var búinn að safna skeggi.
Í bílnum hans fundust eftirfarandi hlutir: 15 þúsund dollarar í reiðufé, fjórir farsímar, ýmis kreditkort fjölskyldumeðlima, útilegubúnaður, hnífar. Mikið af fötum og 9 pör af skóm ásamt korti þar sem búið var að merkja við heimili Amber Frey. Og síðast en ekki síst, skófla, reipi, viagra og svefntöflur.
Allt benti til að Scott væri sekur. Hann hlýtur að hafa gert þetta. Eða hvað? Í nútíma réttarfari eru sönnunargögn nauðsynleg til að hægt sé að dæma fólk fyrir morð, jafnvel í kviðdómskerfi líkt og í Bandaríkjunum, en hvað hafði lögreglan á hann annað en lygar og furðuleg hegðun?
Ákært var fyrir morð svo Scott var haldið í gæsluvarðhaldi fram að réttarhöldunum. Lagaflækjurnar létu ekki á sér standa og fljótlega var ákveðið að færa réttarhöldin frá Modesto til Redwood. Daglega var fjallað um réttarhöldin í fjölmiðlum vestra og eflaust muna aðdáendur Jay Leno hér á landi eftir honum tala um málið á hverju kvöldi heilu vikurnar á Skjá Einum.
Ekki var mikið um sönnunargögn, sérfræðingur í hafstraumum fékk kviðdóminn til að klóra sér í hausnum og Scott játaði aldrei neitt í símtölum sínum við Amber. Eina sem saksóknarinn hafði fyrir utan lygarnar var hár á töng sem fannst í bátnum en ekki tókst að sanna að það hefði komið frá Laci. Verjendurnir áttu líka undir högg að sækja, enda var trúverðugleiki Scott í molum. Ýjað var að því að Laci hefði verið myrt af vændiskonu sem hefði verið að stela úr póstkassa Laci, en það var ansi langsótt kenning.
Fjölskylda hans hefur komið fram með þá kenningu að glæpagengi hafi stundað innbrot í götunni og hafi þá rænt Laci. Glæpagengið hefði svo komið líkinu fyrir eftir að lögregla upplýsti í fjölmiðlum að Scott hefði verið að sigla á San Francisco-flóa til að koma sökinni á hann. Var bent á óstaðfesta vitnisburði um að Laci hafi sést á göngu með hundinn þeirra á sama tíma og Scott var að sigla. Ítarlega var fjallað um þá kenningu í þáttum sem komu út árið 2017.
Saksóknaranum tókst þó að setja saman kenningu sem kviðdómurinn gat sætt sig við, þair sögðu að Scott hefði aldrei viljað giftast, hvað þá eignast börn. Hann hafi því myrt hana til verða aftur einhleypur og notið góðs af sölu hússins. Eftir að líkin fundust hafi hann svo reynt að flýja til Mexíkó eftir að hafa myrt Amber Fry.
Þetta dugði og kviðdómurinn dæmdi hann sekan. 15. mars 2005 var hann svo dæmdur til dauða og segir í dómsorði:
Morðið á Laci og ykkar ófædda barni var ógeðslegt, hræðilegt, ósvífið og sýndi einbeittan brotavilja.
Laci væri 42 ára í dag og Conner 15 ára hefðu þau lifað. Amber Fry er nú gift tveggja barna móðir og starfar sem sjúkranuddari í Kaliforníu, hún sagði í nýlegu viðtali að enn í dag væri fólk að benda á hana út á götu. Aðspurð um hvað hún myndi segja við Scott sagði hún:
Ég hef í rauninni ekkert að segja við hann
Gefnar voru út tvær sjónvarpsmyndir um málið á meðan þar var í hámæli, önnur fjallaði um Scott þar sem Dean Cain reyndi sitt besta að leika Scott bæði saklausan og sekan þar sem dómur var ekki fallinn í málinu. Hin myndin einblíndi á Amber Frey. Fyrir nokkrum árum kom út kvikmyndin Gone Girl sem minnir um margt á mál Laci Peterson, en þar leikur Ben Affleck mann sem er sakaður um að hafa myrt konuna sína.
Scott Peterson dvelur nú á dauðadeildinni í San Quentin-fangelsinu.