fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

„Sjálfsögð mannréttindi hjá menningarþjóðum að hafa myndlist aðgengilega í almannarými“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 2019 17:00

Anna Eyjólfsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna, skrifar um gildi nýrra útilistaverka í almenningsrými, í kjölfar fréttaflutnings af listaverkinu Pálmar eftir Karen Sander, sem fyrirhugað er að rísi í Vogabyggð, en hugverk hennar var hlutskarpast í hugmyndasamkeppni á vegum Reykjavíkurborgar.

Heildarkostnaður verksins er um 140 milljónir, sem samanstendur af tveimur pálmatrjám, sem tveir upphitaðir og upplýstir glersívalningar hýsa allt árið um kring, en hver þeirra kostar um 43 milljónir króna.

Anna segir það sjálfsögð mannréttindi að myndlist sé aðgengileg í almannarými og fagnar tilkomu pálmatrjánna:

„Það er fagnaðarefni að Reykjavíkurborg ætli að reisa nýtt og glæsilegt útilistaverk í Vogabyggð í austurhluta borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur unnið að því að færa listina til fólksins, forráðamenn borgarinnar hafa lýst því yfir að útilistaverk eigi ekki eingöngu að vera í miðborginni heldur einnig í öðrum hverfum í nærumhverfi íbúa þeirra. Það þykja sjálfsögð mannréttindi hjá menningarþjóðum að hafa myndlist aðgengilega í almannarými.“

Anna nefnir þekkt íslensk verk sem notið hafa hylli og hafi sett svip sinn á umhverfið:

„Þekktir íslenskir listamenn hafa málað risastór málverk á blokkir í Breiðholti sem setja metnaðarfullan svip á umhverfi sitt, listaverk sem ekki fara framhjá neinum og flestir eru stoltir af. Kynslóðir framtíðarinnar munu geta sagt frá upplifun sinni af listaverkunum sem þau sáu sem börn í sínum hverfum og hvernig þau hafi verið þeim innblástur. Sama á m.a. við um norðurströnd Reykjavíkur þar sem Sólfarið og önnur listaverk eru sífelldir gleðigjafar jafnt innlendra sem erlendra vegfarenda.“

Anna telur slíkar samkeppnir mikilvægar fyrir samfélagið og segir að menningarverðmætin sem af þeim hljótist verði hluti af menningararfi þjóðarinnar þegar fram líður:

„Samkeppnir um gerð listaverka með þátttöku innlendra og erlendra listamanna eru mikilvægar,fyrir samfélagið. Um leið og þær gefa listamönnum  tækifæri til að koma á framfæri  nýstárlegum og frumlegum hugmyndum að listaverkum. eru þær  nauðsynlegar til að útboðsaðilar fái aðgang að úrvali hugmynda. Það liggur í hlutarins eðli að listaverk verða ekki til án tilkostnaðar. Hugmyndir sem verða að listaverkum eru menningarverðmæti, sem verða hluti af menningararfi okkar í framtíðinni. Með gerð nýrra listaverka er verið að leggja inn í þann sjóð. Íslendingar hafa átt því láni að fagna að fá hingað þekkta erlenda myndlistarmenn, sem hafa gert stór útilistaverk í borgarlandinu, verk sem vekja ómælda athygli og draga að erlenda gesti.“

Að lokum nefnir Anna að allt hafi verið til fyrirmyndar í hugmyndasamkeppninni, þar sem Karin Sand bar sigur úr býtum:

„Samkeppnin sem haldin var fyrir Vogabyggð veitti listamönnum, innlendum og erlendum, tækifæri til að koma vönduðum og stórbrotnum hugmyndum á framfæri. Aðdragandi og öll framkvæmd samkeppninnar var í alla staði til fyrirmyndar og mætti gjarnan halda fleiri slíkar. Dómnefndin var alfarið skipuð fagmenntuðu fólki sem átti erfitt verk fyrir höndum því tillögurnar voru allar spennandi og hver annarri veglegri. Verðlaunatillagan kemur til með að setja fallegan svip á umhverfi sitt, hún er nýstárleg og glæsileg viðbót við þau útilistaverk sem nú þegar prýða borgina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt