Bæring Ólafsson, sem bauð sig fram til forseta árið 2016, hefur boðist til þess að gefa Reykjavíkurborg tvö pálmatré úr garðinum hjá sér í Manila á Filipseyjum.
Vill hann með því leggja sitt af mörkum, en Bæring segist tilbúinn til þess að spara Reykjavíkurborg tugi milljóna með gjöf sinni, því borgin þurfi aðeins að greiða flutningskostnaðinn, sem er um 200 þúsund krónur.
Örlítillar ónákvæmni gætir hjá Bæring varðandi kostnaðinn, en fyrirhugað var að kaupa tvö pálmatré á 1,5 milljón króna, sem hluta af listaverki í Vogabyggð, sem kosta á 140 milljónir í heildina. Tveir glerturnar utan um trén kosta hver um sig 43 milljónir og fær höfundur verksins tæpar 15 milljónir fyrir hugverkið, sem bar sigur úr býtum í hugmyndasamkeppninni.
Bæring áætlar að trén verði komin hingað til lands í byrjun maí:
„Get gefið þessi 2 pálmtré úr garðinum mínum og sent þau í 20 feta gámi frá Manila til Reykjavík fyrir 200,000 kr, var að tjékka á flutningskostnaðnum rétt áðan….. get sparað Reykjavíkurborg tugi milljóna með þessu. Bara láta mig vita, tekur 9 vikur í flutningum, verður komið í fyrstu vikunni í maí.“