Það er gaman að bjóða heimilisfólkinu upp á tortilla-kökur sem hver fyllir með því sem honum finnst gott. Það er ekkert mál að búa til sínar eigin tortilla-kökur heima fyrir og finnst okkur á matarvefnum þær miklu betri en þær sem eru keyptar úti í búð.
Hráefni:
3 bollar hveiti
1 bolli volgt vatn
1 tsk. sjávarsalt (plús meira við bakstur)
4½ msk. grænmetisolía (líka hægt að nota ólífuolíu)
Aðferð:
Blandið öllum hráefnum vel saman í skál og hnoðið deigið vel. Leyfið því síðan að hvíla í um 10 mínútur. Setjið nokkra dropa af olíu á pönnu og hitið yfir mjögháum hita. Takið smá klípu af deiginu og fletjið út í hringlaga köku. Deigið er frekar teygjanlegt þannig að ég leik mér líka með það í höndunum og teygi það aðeins til. Við viljum að kökurnar séu frekar þunnar. Þegar pannan er orðin mjög heit, er kökunni skellt á og smá sjávarsalti stráð yfir hana. Kakan er síðan bökuð í um mínútu. Síðan er henni snúið við og hún bökuð í um mínútu í viðbót. Mér finnst best að nota töng til að snúa kökunum við. Svona er þetta gert koll af kolli þar til deigið er búið. Munið bara að pannan þarf að vera vel heit og kökurnar þurfa ekki langan baksturstíma þannig að það þarf að fylgjast mjög vel með þeim.