Nýtt myndskeið frá átökum fyrir utan World Class
„Ég hafði lagt fram kærur og ég valdi að tjá mig ekki til að skemma ekki mín mál eða annarra. Ég hef því haft vit á því að þegja, þótt erfitt hafi verið að lesa lygar sem Hilmar Leifsson hefur haft uppi um mig opinberlega. Ég kærði Hilmar og Óskar Barkarson og tvo Pólverja fyrir árás á mig fyrir utan Laugar. Nú er komið í ljós að lögreglan henti kærunni í ruslið.“
Þetta segir Gilbert Grétar Sigurðsson í samtali við DV. Gilbert og Hilmar hafa á síðustu árum staðið í harðvítugum deilum sem ítrekað hafa ratað í fjölmiðla og hafa ásakanir gengið á víxl. DV greindi frá átökum fyrir utan World Class í Laugum í ágúst 2014. Myndband náðist af átökunum.
Dv.is birti annað myndband sem hefur aldrei komið fyrir almenningssjónir og fer nánar í saumana á sögu Gilberts og Hilmars.
Myndbandið má sjá neðst í fréttinni. Nú er komið í ljós að Laugamálið fór ekki fyrir dóm og tók Gilbert því ákvörðun um að segja söguna sína í ítarlegu viðtali sem birtist í DV og á Dv.is síðastliðinn þriðjudag.
Sjá einnig: Í átökum við World Class
„Ég hafði ráðfært mig við fjölda lögmanna og lögreglan sagði sjálf að þetta væri borðleggjandi fangelsi. Þeir voru fjórir, ég einn. Nú þegar búið er að henda málinu í ruslið spyr ég, má þá ráðast fjórir á einn með stórhættulegri straumbyssu og höggum? Svo virðist vera,“ segir Gilbert og bætir við:
„Ég hef alltaf haldið öllum gögnum til haga um Hilmar. Ég furða mig á að Laugamálið hafi verið fellt niður en hægt er að sjá alvarleika árásarinnar í myndskeiðunum,“ segir Gilbert og bætir við:
„Ég stíg ekki fram og segi sögu mína nema getað bakkað hana upp með skjölum og sönnunum. Gögn sem ég hef undir höndum sanna mál mitt og ég er til í að sýna þau opinberlega hvenær sem er. Það er margt enn ósagt. Fjölmiðill er ekki stór lúður til að öskra einhvern niður og nota sem gremjuverkfæri.“
Ef Hilmar myndi stinga upp á vopnahléi, segði: „Förum í sitthvora áttina. Þú verður aldrei var við mig aftur“, myndir þú samþykkja það eða lýkur þessu stríði ekki fyrr en annar hvor ykkar hrekkur upp af?
„Æran mín er ekki til sölu og ég er ekki að fara gefa Hilmari æruna mína. Hana tek ég með mér í gröfina. Hilmar álítur kannski að hann sé mér æðri en enginn er mér æðri nema minn Guð. Það er mikill skaði skeður. Barnið mitt er búið að fá taugaáfall. Börnin mín eru búin að hljóta verulega mikinn skaða af þessu. Hann yrði þá að láta alla sem hafa leitað til mín í friði líka. Ég myndi aldrei fyrirgefa Hilmari. Ég er maður fyrirgefningar en ég held að hún virki ekki í þessu tilfelli. Tilhugsunin um fyrirgefningu veldur velgju og ógleði, en mér finnst að hann ætti að vera kominn í fangelsi fyrir löngu. Maður spyr sig hvað sé eiginlega að gerast niðri á lögreglustöð. Það er eins og hann sé verndaður,“ segir Gilbert.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=1hGK1tr2ahU&w=640&h=360]