Elmar Gilbertsson með í fyrsta sinn
Óperudraugar blása til hátíðartónleika í Hörpu á áramótum. Bjarga ferðamönnum frá „ekkert að gera á nýársdag“. Elmar Gilbertsson með Óperudraugum á áramótum. Syngjum inn nýtt ár í Norðurljósa sal Hörpu.
Stórsöngvararnir Gissur Páll, Valgerður Guðna, Oddur Arnþór og nú í fyrsta sinn, stjörnutenórinn Elmar Gilbertsson verða Óperudraugar um áramótin en söngvararnir blása til nýárstónleika í Hörpu í þriðja sinn. Óperudraugarnir koma fram ásamt strengjasveit og píanóleikara en tónlistarstjóri Óperudrauganna er Óskar Einarsson sem löngu er landsfrægur fyrir útsetningar og tónlistarstjórn á stórviðburðum. Óperudraugarnir munu syngja uppáhalds sönglög sín og aríur á tónleikunum. Með þeim á sviðinu verður strengja kvintett sem leiddur er áfram af Roland Hartwell og einvala hljóðfæraleikurum. Sýningarnar hefjast 29. desember nk og enda með tveimur sýningum 1. janúar kl 17:00 og 20:00. Sungið og kynnt er á nokkrum tungumálum þannig að dagskráin höfðar til bæði íslenskra og erlendra tónlistarunnenda.
Söngvarana þarf varla að kynna fyrir nokkrum hérna heima á Íslandi. Gissur Páll hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína á Rodolfo í La Boheme hjá Íslensku óperunni vorið 2012, hann lærði á Ítalíu og hefur flakkað um víðaveröld til að syngja . Valgerður Guðnadóttir söng hlutverk Bertu í Rakaranum frá Sevilla sem Íslenska Óperan setti upp í fyrra og þá er nú bara fátt eitt talið til, hún hefur einfaldlega verið ein af uppáhaldssöngkona Íslendinga í tæpa tvo áratugi. Oddur Arnþór hefur verið gjörsamlega að brillera um allan heim en flýgur til Íslands með jöfnu millibili til að troða upp með Íslensku Óperunni eða Óperudraugunum.
“Þetta hafa verið afskaplega skemmtilegir viðburðir og árið í ár verður væntanlega engin undantekning ef fyrsta æfingin er til marks um eitthvað. Við hittumst í síðustu viku og það fór allt af stað” sagði Gissur Páll um samstarf Óperudrauganna. Gissur er einn þeirra sem hefur verið með í söngsýningunni frá upphafi en Valgerður Guðnadóttir hefur líka verið með frá upphafi. “Það er rétt, við Gissur höfum verið með frá upphafi og þetta er ofsalega gaman að koma svona saman eftir jólahátíðina og sjá hvort við pössum enn þá í fínu fötin” sagði Valgerður Guðnadóttir. “Þetta hefur gengið vonum framar og við erum fyrst og fremst þakklát fyrir það og hvað hópurinn er skemmtilegur og hvað þetta rennur svo vel og við skemmtum okkur vel.
Svo er það spútnik tenórinn og sjarmörinn Elmar Gilbertsson sem valinn var söngvari ársins á Grímunni í sumar fyrir hlutverk sitt, Don Ottavio, í uppsetningu Íslensku óperunnar á Don Giovanni eftir Mozart. Hann sló fyrst í gegn í Óperunni Ragnheiði fyrir rúmlega þremur árum og hefur verið óstöðvandi síðan.
Í fyrra og árið þar áður sungu Óperudraugarnir fyrir fullum sal aftur og aftur i Hörpu og sagan endurtók sig á Akureyri. Í ár verður sýning Óperudrauganna í Norðurljósasal Hörpu og verður enginn svikinn af efnisskránni. Helstu aríur og sönglög söngbókmennta frá Ítalíu, Spáni, Þýskalandi og Íslandi munu rata upp á svið og gestir Óperudrauganna geta sannarlega farið að hlakka til.
Sýningar eru sem hér segir –
• 29 desember 2016 kl. 20:00
• 30 desember 2016 kl. 20:00
• 01 janúar 2017 kl. 17:00
• 01 janúar 2017 kl. 20:00