Daily Mirror skýrir frá þessu. Fram kemur að embættismenn ESB hafi varað við uppþotum og óeirðum og segi slíkt óhjákvæmilegt, óháð útkomunni í þeirr harðlæstu pólitísku stöðu sem nú er uppi. Í skýrslunni kemur einnig fram að líklegt megi teljast að á næstu 18 mánuðum verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslna í Skotlandi og á Norður-Írlandi um sjálfstæði frá Bretlandi.
Mirror hefur eftir embættismanni innan ESB að það sé mat sérfræðinga að ofbeldi sé nær óhjákvæmilegt næstu árin sama hvernig fer.
„Þeir hafa áhyggjur af að ef núverandi samningur verður samþykktur muni hægrimenn láta til sín taka. Ef enginn útgöngusamningur verður muni allir láta til sín taka. Ef það verður önnur þjóðaratkvæðagreiðsla munu hægrimenn láta til sín taka. Hægrivængur stjórnmálanna er mesta áhyggjuefnið.“
Skýrslan er byggð á upplýsingum frá leyniþjónustum aðildarríkja ESB nema hvað breska leyniþjónustan MI5 kom ekki að gerð hennar. Æðstu menn aðildarríkja sambandsins, þar á meðal Theresa May forsætisráðherra Bretlands, hafa fengið skýrsluna afhenta.