Þurfti að grípa til aðgerða til að anna eftirspurn og frekari aðgerða þörf – Truflanir sagðar eiga sér eðlilegar skýringar
Raforkuþörf nýs lúxushótels á Hnappavöllum sem opnað var í sumar er svo mikil að til að anna henni hefur RARIK þurft að grípa til aðgerða og þörf er á frekari aðgerðum til að tryggja afhendingu rafmagns.
Það var í júní síðastliðnum sem opnað var nýtt og stórt fjögurra stjörnu lúxushótel á Hnappavöllum við rætur Öræfajökuls, milli Skaftafells og Jökulsárlóns. Hótelið, sem heitir Fosshótel Jökulsárlón, er sagt það stærsta sinnar tegundar í dreifbýli með 104 herbergi. Eins og gefur að skilja útheimtir slík starfsemi umtalsverða orku og þegar vart varð truflana á raforkuafhendingu á svæðinu í kring fóru einhverjir að velta fyrir sér hvort nýja hótelinu væri hugsanlega um að kenna. DV leitaði skýringa á þessum orðrómi hjá RARIK. Þar fengust þau svör að ekki væri rétt sem DV hafði heyrt að hótelið væri að taka svo mikla raforku til sín að það orsakaði rafmagnsleysi á svæðum í kring.
„Hins vegar er rétt að hótelið tekur umtalsvert rafmagn og til að anna því hefur þurft að grípa til aðgerða og þarf að grípa til frekari aðgerða,“ segir í svari RARIK. Truflanir eigi sér hins vegar eðlilegar skýringar.
RARIK er með afhendingarstað frá Landsneti á Hólum við Höfn í Hornafirði þaðan sem liggur um 125 kílómetra 19kV háspennulögn að Skaftafelli í Öræfum sem sér viðskiptavinum á svæðinu frá Hornafjarðarfljóti vestur að Skaftafelli fyrir raforku. Samkvæmt upplýsingum frá RARIK hefur verið unnið markvisst að endurnýjun á þessari línulögn frá því fyrir síðustu aldamót með jarðstreng, sem er nú 100 kílómetra af leiðinni í jörð en 25 kílómetra í loftlínu.
„Ef bilun verður á þessari löngu lögn eða ef vinna þarf við breytingar og viðgerðir á henni veldur það að jafnaði einhverju straumleysi meðan á vinnu stendur. Loftlínuhlutinn er meiri truflanavaldur vegna veðurs og áflugs fugla. Þær truflanir sem orðið hafa á raforkuafhendingu á svæðinu hafa tengst bilunum og áflugi á línuhlutann, nema sú síðasta sem var 29. nóvember sl. vegna tenginga á nýrri strenglögn við Steinavötn.“
Talsmenn RARIK segja að alltaf hafi legið fyrir að grípa þyrfti til aðgerða til að auka flutningsgetu dreifikerfisins þegar nýja hótelið á Hnappavöllum færi í fullan rekstur.
„Sú lausn sem RARIK telur besta er að fá nýtt úttak hjá Landsneti úr Byggðalínunni nálægt Hnappavöllum og voru strax hafnar viðræður við Landsnet um þá lausn. Nú liggur fyrir að framkvæmdir við þetta úttak á Byggðalínunni geti hafist í byrjun næsta árs og verði væntanlega lokið í árslok 2017.“
Í svari fyrirtækisins segir að dreifikerfið hafi hingað til annað því álagi sem verið hefur á svæðinu, en verið sé að koma fyrir spennustillum á dreifikerfið við Reynivelli til að tryggja spennuástand á svæðinu í vetur og þangað til úttakið við Hnappvelli verður komið í rekstur. Einnig verði færanlegri dísilvél komið fyrir við Smyrlabjargaárvirkjun til að anna álaginu á mesta álagstíma á komandi vetri.
„Þegar nýr afhendingarstaður Landsnets við Hnappavelli verður komin í gagnið mun rekstraröryggi dreifikerfisins milli Hafnar og Skaftafells aukast til muna, bæði vegna bilana og nýtenginga, þar sem hægt verður að reka kerfið frá tveimur afhendingarstöðum á Byggðalínu.“