Neyðist til að eyða jólunum um borð í flugvél
Svo virðist sem einhverjir eigi eftir að eyða þessum jólum um borð í flugvél á leiðinni til landsins. Einhverjar seinkanir eru á flugum WOW air frá Evrópu til Keflavíkur eftir hádegi í dag. Samkvæmt vef Keflavíkurflugvallar seinkar áætlun vélar flugfélagsins frá Berlín um rúmlega fjóra tíma. Vélin sem átti að lenda klukkan 14:20 lendir því klukkan 18:30, hálftíma eftir að jólaklukkur RÚV klingja. Fréttaveita Vísis greindi frá þessu fyrir stuttu.
Áætlunum annarra véla frá WOW air seinkar einnig og flugvélar sem áttu að lenda klukkan 13:50 og 14:15 lenda þess í stað klukkan 16:30 og 17:15.
Einn þeirra sem lenda hvað harðast í ofangreindum seinkunum er Halldór Berg Harðarson sem vandar WOW air ekki kveðjurnar á facebooksíðu sinni: “Þegar það ert svona ódýrt að stela jólum annarra hver myndi láta sér detta í hug að þeir myndu punga út nokkrum milljónum til að laga áætlunina sína strax í fyrra dag. Þvílíkir snillingar!” Pistilinn má lesa í heild sinni hér.