Innlend kortavelta Íslendinga í verslun í desember nam 48,4 milljarði kr. og hækkaði um 3,7% frá desember 2017. Netverslun var meiri í nóvember en í desember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Jólaverslun fer að mestum hluta fram í nóvember og desember, en líkt og kom fram í síðustu tilkynningu setursins hefur jólaverslun í auknum mæli færst fram í nóvember og þá sérstaklega sú verslun sem fer fram á netinu. Desember er þó eftir sem áður stærsti verslunarmánuður ársins. Ef litið er til samanlagðrar veltu nóvember og desember 2018, samanborið við sömu mánuði árið á undan er veltuaukning innlendra korta í verslun 4,3% en veltuaukning innlendra korta alls 3,3% á milli ára. Nóvember er þó stærri netverslunarmánuður en desember en velta í netverslun Íslendinga lækkaði um 5% á milli mánaða.
Dagvöruverslun og stórmarkaðir er stærsti einstaki verslunarflokkurinn þegar horft er til veltu en velta hans jókst um 7,8% í desember síðastliðnum samanborið við desember árið á undan og nam kortavelta flokksins 17,8 milljörðum króna.
Kortavelta raf- og heimilistækjasala minnkaði um 1,6% í desember samanborið við desember 2017. Á netinu jókst velta flokksins um 10,8% á milli ára á meðan veltan í búðum dróst saman um 2,4% á sama tímabili. Líklegt verður að telja að veltuhár undangenginn nóvember hafi haft sitt að segja og lækkunin nú vottur um tilfærslu jólaverslunar á milli mánaða.
Fataverslun heldur áfram að aukast á Íslandi, þar sem að fataverslun jókst um 12,7% í desember frá fyrra ári. Sé einungis litið á netverslun í flokknum jókst veltan um 11,4% á milli ára. Líkt og kortaveltutölurnar sýna, jókst velta í netverslun með föt í hverjum mánuði á árinu.
Í verslunum sem selja heimilisbúnað, nam aukningin 9,8% á milli ára í kortaveltu. Netverslun flokksins dróst þó saman um 3,7% á milli ára.
Velta í veitingaþjónustu nam 5,4 milljörðum í desember síðastliðnum og jókst um 6,1% á milli ára. Desember er stór mánuður í sölu veitinga enda jólahlaðborð nauðsynlegur þáttur í jólaundirbúningi margra. Þá er algengt að landsmenn geri sér glaðan dag í tengslum við jólatónleika í desember og njóti veitingastaðaflórunnar eða jafnvel heimsæki veitingastaði til að komast undan skötunni á Þorláksmessu.