Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Guðmundi St. Guðmundssyni, réttargæslumanni Elmars, að Elmar hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsi og sé á hægum batavegi eftir þessa hrottalegu árás. Hann muni bera ör eftir þetta til æviloka og að langan tíma muni taka fyrir hann að vinna úr áfallinu sem hann varð fyrir við árásina.
Guðmundur krefst rúmlega 5 milljóna í skaðabætur fyrir hönd Elmars.
Meðal stungusára Elmars voru 7 til 8 sm langur og djúpur skurður aftan við vinstra kjálkabarð en munnvatnskirtill skarst í sundur við þessa stungu auk kjálkavöðva að hluta og orsakaði stungan slagæðablæðingu. Elmar hlaut annan álíka stóran skurð um vinstra gagnauga í hársverði og náði hann alveg inn að beini.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að árásin hafi átt upptök í deilum Sindra við fyrrum unnustu sína við hraðbanka í miðbæ Akureyrar. Elmar kom þar að og reyndi að stilla til friðar en Sindri var ekki sáttur við það og réðst á hann með fyrrgreindum afleiðingum.
Sindri hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn á heimili sínu en blóðugur hnífur fannst við húsleit heima hjá honum.