Streymisveitan Netflix hefur tryggt sér sýningarréttinn á íslensku sjónvarpsþáttaröðinni CASE í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Suður Ameríku. Hafa þeir nú þegar verið teknir til sýninga á öllum nýju mörkuðunum. Þættirnir hafa áður verið aðgengilegir á Netflix í Bandaríkjunum, norðurlöndunum og um 30 öðrum mörkuðum. Eru því markaðirnir orðnir yfir 100 þar sem serían hefur verið sýnd, HBO Europe sýndi í Austur Evrópu og Walter Presents í Bretlandi.
Þættirnir sem framleiddir voru af Sagafilm voru fyrst sýndir á Stöð 2 haustið 2015 undir nafninu Réttur 3. Netflix hefur talsett þættina á þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku og portúgölsku. Þættirnir hafa fengið mikið lof gagnrýnanda og voru til dæmis á lista New York Times yfir bestu þáttaraðir ársins 2016.
„Það er afar ánægjulegt að Netflix skuli vilja bæta við mörkuðum þremur árum eftir frumsýningu, þetta eru stærstu markaðir í Evrópu og svokallaðir „dub“ markaðir þar sem efnið er oftast talsett á heimatungumálum í hverju landi fyrir sig, þetta er því veruleg fjárfesting sem Netflix er að setja í seríuna.“ segir Kjartan Þór Þórðarson einn framleiðenda seríunnar.
Red Arrow Studios í Þýskalandi er dreifingaraðili þáttanna.