Aflandskrónueigandi á meðal stærstu hluthafa flugfélagsins – Umsvifamikill í sex skráðum félögum
Fjárfestingarsjóður á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management komst nýlega í hóp stærstu hluthafa Icelandair Group með tæplega eins prósents eignarhlut. Sjóðurinn Global Macro Portfolio, sem hefur fjárfest í fjölmörgum skráðum félögum á Íslandi á undanförnum misserum, er eini erlendi fjárfestirinn sem kemst á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa flugfélagsins. Sé tekið mið af núverandi markaðsvirði Icelandair, sem er um 115 milljarðar króna, þá er hlutur bandaríska sjóðsins metinn á liðlega 1.150 milljónir króna.
Fjárfestingarsjóðurinn, sem er stýrt af Boston Research Management, dótturfélagi Eaton Vance, hóf fyrst að kaupa bréf í Icelandair fyrr á þessu ári og bætti síðan talsvert við eignarhlut sinn í flugfélaginu síðastliðið haust. Þá hefur annar sjóður á vegum Eaton Vance – Global Macro Absolute Return Advantage – jafnframt staðið að kaupum á bréfum í Icelandair á árinu, samkvæmt upplýsingum DV. Sú fjárfesting hefur hins vegar verið smærri í sniðum og því ekki skilað sjóðnum á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins.
Sjóðirnir byrjuðu að fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði, eins og áður hefur verið fjallað um á síðum DV, fljótlega eftir að stjórnvöld kynntu aðgerðaáætlun sína um losun fjármagnshafta í júní 2015. Eru þeir í reynd einu erlendu fjárfestarnir sem hafa gert sig gildandi á hlutabréfamarkaði hérlendis svo einhverju nemi eftir fjármálaáfallið haustið 2008. Þannig voru sjóðirnir í lok síðustu viku á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa í sex skráðum félögum – Icelandair, Högum, Reitum, HB Granda, Símanum og Eimskipum – og nemur samanlagt markaðsvirði eignarhlutanna um 7,5 milljörðum króna. Þá komst Global Macro Portfolio sömuleiðis um tíma í hóp stærstu eigenda fasteignafélagsins Regins í októbermánuði síðastliðnum með 1,12 prósenta hlut. Varlega áætlað eiga bandarísku sjóðirnir tveir samtals um eitt prósent af heildarhlutafé á íslenskum hlutabréfamarkaði.
Þrátt fyrir erfitt árferði á markaði það sem af er þessu ári – Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um níu prósent – þá vegur á móti að gengi krónunnar hefur styrkst um liðlega fimmtán prósent gagnvart Bandaríkjadal. Fjárfesting sjóða Eaton Vance á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur því almennt skilað þeim ágætis ávöxtun. Þetta á ekki síst við um félög á borð við Eimskip og Haga en gengi bréfa þeirra hefur hækkað mikið á árinu. Annað gildir hins vegar um fjárfestingu sjóða Eaton Vance í Icelandair en hlutabréf fyrirtækisins hafa lækkaði í verði um meira en 32% frá áramótum eftir að leiðrétt hefur verið fyrir arðgreiðslum.
Ef undan er skilið árið 2009, þegar aðeins 0,2 prósenta hlutur skilaði DnB NOR Bank ASA í hóp tuttugu stærstu hluthafa Icelandair, þarf að fara allt aftur til 2006 til að finna erlenda fjárfesta sem komust inn á lista yfir stærstu hluthafa flugfélagsins. Þá áttu erlendir fjárfestar samanlagt liðlega þriggja prósenta hlut í félaginu og nam eignarhlutur þess stærsta – Credit Suisse Securities Europe – 0,9 prósentum. Samkvæmt ársskýrslum Icelandair Group fyrir árin 2007 og 2008 nam samanlagður eignarhlutur erlendra fjárfesta í fyrirtækinu hins vegar aðeins um 1,2 prósentum. Enginn í hópi þeirra hluthafa var á meðal tuttugu stærstu eigenda félagsins.
Kaup sjóðanna í skráðum íslenskum félögum eru ekki síst áhugaverð fyrir þær sakir að Eaton Vance er á meðal þeirra bandarísku fjárfestingarsjóða sem kanna núna þann möguleika að höfða málsókn á hendur íslenska ríkinu vegna frumvarps fjármálaráðherra um meðferð aflandskrónueigna. Eaton Vance er sem kunnugt er á meðal stærstu aflandskrónueigenda – sjóðurinn á aflandskrónur fyrir meira en 30 milljarða – og féllst ekki á þau skilyrði sem voru sett í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands í sumar til að leysa út aflandskrónueignir að fjárhæð samtals 320 milljarða.
DV greindi frá því 6. desember síðastliðinn að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði fallist á beiðni Eaton Vance og bandaríska vogunarsjóðsins Autonomy Capital, sem er jafnframt stór aflandskrónueigandi, um að skipaðir verði tveir óháðir erlendir matsmenn sem eiga að meta þær efnahagslegur forsendur sem lágu til grundvallar aðgerðum íslenskra stjórnvalda um meðferð aflandskrónueigna. Telja sjóðirnir að aðgerðirnar sem gripið var til verði ekki réttlættar með vísan til efnahagslegrar nauðsynjar. Skömmu áður hafði Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að frumvarp ráðherra væri í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum. Tók stofnunin því ekki undir kvartanir sömu aflandskrónueigenda þess efnis að aðgerðir ríkisins til að losa höft hafi falið í sér ólögmæta eignaupptöku og brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.