fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Pressan

Svona skipulagði hann ránið á Jayme Closs – „Ég vissi að hún var stúlkan sem ég ætlaði að taka“

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 15. janúar 2019 06:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jayme Closs, 13 ára,  var rænt frá heimili sínu í Wisconsin í Bandaríkjunum þann 15. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru þá myrtir. Hvarfið þótti mjög dularfullt og lögreglan hafði ekki á miklu að byggja í upphafi. Jayme slapp síðan úr haldi mannræningjans síðastliðinn fimmtudag eftir 88 daga í haldi hans. Það var Jake Patterson, 21 árs, frá Wisconsin sem rændi henni og var hann handtekinn á föstudaginn.

Fyrstu dagana eftir handtökuna var lögreglan engu nær um af hverju Patterson myrti foreldra Jayme og nam hana á brott og hélt fanginni. Nú er Patterson loksins farinn að tjá sig við lögregluna og skýrari mynd er að komast á málið í heild sinni. Saksóknarar birtu ákæruskjal á hendur honum í gær, samkvæmt því sem þar kemur fram ákvað Patterson að ræna Jayme í fyrsta sinn sem hann sá hana.

„Ég vissi að hún var stúlkan sem ég ætlaði að taka.“

Er haft eftir honum í ákærunni. Fram kemur að þann sama dag keypti Patterson svarta skíðagrímu sem hann notaði til að hylja andlit sitt tveimur vikum síðar þegar hann myrti foreldra Jayme og nam hana á brott. Hann braust inn á heimili Closs-fjölskyldunnar og skaut foreldra Jayme til bana með afsagaðri haglabyssu.

Síðan hélt hann á brott með Jayme og ekkert spurðist til hennar fyrr en síðasta fimmtudag þegar hún birtist skyndilega, horuð, köld og hrædd, á snæviþöktum vegi í skógi í Gordon sem er um 100 km frá heimili hennar.

„Ég gerði þetta!“

Jayme hafði lánast að sleppa frá húsi Patterson þar sem henni hafði verið haldið fanginni. Hér er hægt að lesa umfjöllun DV um húsið og aðstæðurnar sem Jayme var haldið fanginni í.

Lögreglan fór í framhaldinu að heimili Patterson og handtók hann.

„Það er ég sem þið eruð að leita að. Ég gerði þetta.“

Sagði hann við lögreglumennina. Hann var færður fyrir dómara í Wisconsin í gær en hann á lífstíðarfangelsi yfir höfði sér án möguleika á reynslulausn ef hann verður fundinn sekur um morðin og mannránið.

Hrósar Jayme

Brian Wright, saksóknari, hrósar Jayme í hástert fyrir frammistöðu hennar.

„Á einhverjum tímapunkti ákvað hún, 13 ára, að segja við sig sjálfa: „Ég verð sjálf að bjarga mér úr þessum aðstæðum.““

Það er alveg ótrúlegt sagði Wright í samtali við Journal Sentinel.

Lögreglan hefur ekki viljað skýra frá hvort Jayme hafi verið beitt ofbeldi, andlegu eða kynferðislegu, í tengslum við þessa skelfilegu reynslu hennar. Ekkert kemur fram um það í ákæruskjalinu.

Þekkti ekki fórnarlömbin

Það gerði rannsókn lögreglunnar mjög erfiða að Patterson þekkti Closs-fjölskylduna ekki neitt og hafði engin tengsl við hana. Auk þess hafði hann gert sitt besta til að hylja slóð sína. Hann hafði rakað allt hár af höfði sér til að skilja ekki DNA eftir á vettvangi og gætti þess að snerta skothylkin, sem hann setti í haglabyssuna, ekki með berum fingrum til að skilja ekki eftir fingraför. Hann var með grímu, hanska og svartklæddur þegar hann réðst inn á heimili Closs-fjölskyldunnar í Barron um miðja nótt. Barron er lítinn bær en þar búa um 3.500 manns.

Jayme hefur sagt lögreglunni að hún hafi vaknað við að hundurinn hennar, Molly, hafi byrjað að gelta. Hún sá bíl fyrir framan húsið og vakti þá foreldra sína. Faðir hennar, James Closs, fór þá niður að útidyrunum til að kanna hvað væri á seyði. Þá skaut Patterson hann með einu skoti í höfuðið.

„Ég skaut hann í höfuðið til að vera viss um að hann myndi deyja. Ég hafði ákveðið að drepa alla sem stæðu í vegi fyrir mér.“

Sagði Patterson í yfirheyrslu.

Lögreglan lýsti eftir Jayme.

Jayme og móðir hennar, Denise Closs, földu sig inni á baðherbergi og hringdu í neyðarlínuna. Patterson fann þær fljótt og sleit símtalinu.

„Ég fann þær í baðkarinu þar sem móðirin hélt Jayme í faðmlögum.“

Hann skipaði Denise að setja límband yfir munn Jayme svo hún gæti ekki öskrað. Síðan skaut hann Denise einu skoti í höfuðið.

Samkvæmt frásögn Jayme dró Patterson hana út í bíl og setti hana í skottið. Þegar hann ók á brott heyrði hún í sírenum lögreglubíla sem voru á leið heim til hennar. Þrír lögreglubílar höfðu verið sendir strax á vettvang eftir símtalið til neyðarlínunnar en komu of seint. Jayme var horfin.

Var látin dúsa undir rúmi

Megnið af þeim 88 dögum sem Jayme var í haldi Patterson var hún látin dúsa undir hjónarúmi í svefnherbergi hans. Henni var bannað að koma undan rúminu og stundum lá hún þar klukkustundum saman án þess að fá vott né þurrt og hvað þá að hún fengi að fara á klósettið. Hún segir að Patterson hafi hótað henni að „eitthvað slæmt mun gerast“ ef hún reyndi að stinga af.

Patterson lamdi hana einu sinni með kústskafti því hann taldi að hún hefði farið undan rúminu án leyfis.

Jayme Closs.

Jayme er nú hjá móðursystur sinni sem hefur verið falið forræði hennar að sinni.

Vildi verða hermaður

Í útskriftarbók úr menntaskóla lýsa samnemendur Patterson honum sem „rólegasta pilti bekkjarins“. Hann tók ekki þátt í félagslífi, sótti ekki íþróttaviðburði eða sýndi neinu áhuga að sögn bekkjarfélaga hans.

Draumur hans var að komast í landgöngulið flotans en hann var látinn hætta þjálfun eftir aðeins fjögurra vikna grunnþjálfun. Hann þótti ekki hafa rétta „karakterinn“ til að gegna hermennsku að mati yfirmanna hans.

Hann bjó á æskuheimili sínu í Gordon en foreldrar hans og eldri systkin voru flutt þaðan svo hann var einn í húsinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum
Pressan
Fyrir 4 dögum

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans
Pressan
Fyrir 4 dögum

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið