María Alexandersdóttir segir að framkoma Jóns Baldvins Hannibalssonar við sig er hún var nemandi hjá honum í Hagaskóla hafi bundið enda á skólagöngu hennar. Matthildur Kristmannsdóttir lýsir meintri grófri áreitni Jóns Baldvins við sig er hann lét hana sitja eftir í skólanum og var einn með henni:
„Hann byrjaði að káfa á mér allri og sleikti á mér hálsinn og eyrað og kinnina. Ég var algjörlega frosin. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt.“
Þetta kemur fram í umfangsmikilli úttekt Stundarinnar á ásökunum gagnvart Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra. Fyrst var getið um kynferðislega áreitni Jóns Baldvins í fréttum fyrir nokkrum árum er í ljós kom að hann hafði skrifað mjög vafasöm bréf til kornungrar frænku sinnar. Í bréfunum lýsti hann meðal annars samförum sínum og eiginkonu sinnar, Bryndísar Schram. Undanfarna daga hefur verið getið um fjölmargar ásakanir á hendur Jóni Baldvini um kynferðislega áreitni í gegnum langt tímabil. DV greindi frá nýjustu ásökuninni um atvik sem á að hafa átt sér stað á heimili Jóns Baldvins eftir leik Íslands og Argentínu á HM síðastliðið sumar. Þar lýsir Carmen Jóhannsdóttir meintri áreitni Jóns Baldvins svo:
„Svo sat vinkona þeirra á milli þeirra og ég og mamma. Ég sat næst honum. Þegar ég stóð upp á einum tímapunkti og fór að skenkja í glösin, þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn. Og ekkert bara rétt aðeins, heldur upp og niður strjúka á mér rassinn.“
Jón Baldvin Hannibalsson var um árabil formaður Alþýðuflokksins. Hann var utanríkisráðherra í samstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins á árunum 1991-1995 undir forsæti Davíðs Oddssonar. Meðal frægra verka Jóns Baldvins sem ráðherra var gerð EES-samningsins við Evrópusambandið og viðurkenning á sjálfstæði Litháens sem á þeim tíma háði harða sjálfsæðisbaráttu við Sovétríkin.