Hlustendur Rásar 2 völdu björgunarsveitir Landsbjargar sem mann ársins. Var þetta tilkynnt í beinni útsendingu. Björgunarsveitir hafa í vetur komið ótal sinnum til bjargar á ögurstundu svo athygli hefur vakið.
Tuttugu þúsund tóku þátt í könnuninni og er það met. Í öðru sæti varð Jóhannes Kr. Kristjánsson stofnandi Reykjavík Media og í þriðja sæti viðmælandi hans í þættinum um Panamaskjölin, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Sigmundur var fyrr í dag valinn maður ársins á Útvarpi Sögu.
Aðrir sem voru tilnefndir voru:
Birgitta Jónsdóttir, Þórunn Ólafsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, Jóhanna Kristjónsdóttir, Sema Erla Serdar og Katrín Jakobsdóttir.