Eyjamenn minntust Kolbeins Arons Arnarssonar markmanns handboltaliðs ÍBV á fallegan og táknrænan hátt í Vestmannaeyjum í kvöld.
Kolbeinn var 29 ára gamall, en hann var bráðkvaddur á heimili sínu í Eyjum um jólin. Hann var einn af lykilmönnum í velgengni og uppbyggingu handboltans í Eyjum undanfarin ár.
Leikmenn liðsins og vinir hans fóru upp í Heimaklett, þar sem þeir röðuðu kertum um klettinn og skutu upp flugeldum til minningar um Kolbeinn Aron, auk þess sem tölustafurinn 1, liðsnúmer Kolbeins Arons, er í hlíðum Heimakletts.
Eyjamaðurinn Halldór B. Halldórsson tók meðfylgjandi myndir af minningarathöfninni í Heimakletti í dag, en hann segir mikla sorg í Vestmannaeyjum vegna fráfalls Kolbeins Arons sem var yndislegur maður og bæjarprýði.
Peyjabankinn – Hagnaður rennur til fjölskyldu Kolbeins Arons
Peyjabankinn, veðbanki, hefur hafið göngu sína að nýju. Að þessu sinni mun allur hagnaður bankans renna til fjölskyldu Kolbeins Arons, en var fastakúnni í bankanum, eins og segir í frétt á Eyjafréttir.is.
Sigurður Bragason bankastjóri heldur utan um bankann og Þorgils Orri Jónsson sér um tæknimál. 2.500 krónur kostar að vera með.
Við skráningu skal leggja þá upphæð inn á reikning 582-26-763, kennitala 120777-4759 (Siggi Braga). Hægt er að taka þátt til klukkan 17:00 á föstudag.
Hægt er að skrá sig til leiks hérna. Eins og áður hefur komið fram mun allur hagnaður renna til fjölskyldu Kolbeins Arons.