fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Eydís varð fyrir kynferðisofbeldi í Tyrklandi: Endaði í fangelsi þegar hún leitaði réttar síns

Auður Ösp
Mánudaginn 14. janúar 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eydís Eir Björnsdóttir var í fríi í Tyrklandi þegar henni var nauðgað af hótelstarfsmanni. Ótrúleg atburðarás leiddi til þess að hún endaði sjálf í fangelsi þegar hún hugðist leita réttar síns. Hún lokaði á atburðina lengi vel en tók að lokum þá ákvörðun að nýta reynslu sína til góðs. Útkoman var stuttmynd sem byggð er á sögu hennar, en með henni vill Eydís vekja athygli á stöðu brotaþola kynferðisofbeldis alls staðar í heiminum.

Kaotísk atburðarás

Hverfum til ársins 2014.

„Það var mjög „spontant“ ákvörðun að fara til Tyrklands. Ég var í þannig aðstæðum að ég þráði að komast í burtu frá öllu. Ég ætlaði að vera ein þarna úti, skrifa, lesa og bara slaka á,“ segir Eydís.

Í gegnum íslenska ferðaskrifstofu bókaði hún vikulanga „all inclusive“ dvöl á hóteli í strandborginni Alanya. Aðeins nokkrum klukkustundum síðar var hún komin um borð í flugvél. Á fyrsta degi ferðarinnar átti Eydís í samskiptum við starfsmann í móttöku hótelsins eftir að hún hafði gleymt herbergislyklinum inni í herberginu. Starfsmaðurinn var að hennar sögn mjög dónalegur í framkomu.

Alanya í Tyrklandi. Ljósmynd/Wikipedia

„Einhverra hluta vegna bjó hann til mikið vesen úr því að ég hefði læst mig úti og spurði mig alls konar spurninga. Hann fylgdi mér síðan upp á herbergi til að hleypa mér inn.“ Hún bætir við að starfsmaðurinn hafi þar af leiðandi vitað í hvaða herbergi hún var og að hún væri ein á ferð í Tyrklandi.

Sama dag komst Eydís í kynni við tvo íslenska stráka sem dvöldu á sama hóteli. Vel fór á með þeim og þau skemmtu sér saman við sundlaugarbakkann fram eftir kvöldi. Þaðan hélt Eydís ein upp á hótelherbergi og sofnaði.

Þrátt fyrir að hafa markvisst unnið í sjálfri sér og tekist á við atburði fortíðarinnar þá á Eydís engu að síður erfitt með að rifja upp þessa örlagaríku nótt. Í minningunni vaknar hún upp í kolniðamyrkri og er ekki lengur ein í herberginu. Starfsmaður hótelsins sem hún hitti fyrr um daginn hafði brotist inn og ráðist á hana þar sem hún svaf.

„Ég lá á maganum og var klædd í náttkjól sem var búið að lyfta upp.“ Eydís hafði verið nauðgað. „Ég fríkaði algjörlega út og trylltist. Þetta var allt saman svo kaotískt.“

Eydís segir átök hafa orðið á milli þeirra tveggja og í hamaganginum hafi meðal annars borð í herberginu skemmst og sjónvarp brotnað. Hún segir annan af íslensku strákunum hafa komið henni til aðstoðar og farið inn á herbergið þar sem frekari átök urðu.

Hún hafi því næst flúið fram á gang og niður í móttöku hótelsins í leit að hjálp. Þar var enginn.

„Ég stóð þarna grátandi og öskrandi og fann engan til að hjálpa mér. Ég sá síðan einhverja ræstingakonu og reyndi að tala við hana, reyndi að fá númer hjá lögreglunni, en hún vildi ekkert gera.“

Eydís segist hafa farið aftur upp á herbergi þar sem starfsmaðurinn og íslenski strákurinn voru. Starfsmaðurinn var þá í símanum og reyndist vera að tala við hótelstjórann. „Ég reif þá af honum símann og öskraði á hótelstjórann hvað hafði gerst. Hans viðbrögð voru: „I’ll talk to you tomorrow.“ Síðan skellti hann á.“

Eydís minnist þess að hafa á þessum tímapunkti misst stjórn á sér, hrækt og sparkað í starfsmanninn og kallað hann öllum illum nöfnum og hrakið hann út úr herberginu. Hún hrundi niður á gólfið niðurbrotin og fékk svo aðstoð við að taka föggur sínar inn á herbergi íslensku strákanna, þar sem hún dvaldi andvaka fram á morgun.

Yfirheyrð eins og glæpamaður

Um átta leytið um morguninn hringdi síminn á hótelherberginu og var Eydísi tilkynnt að lögreglan biði eftir henni niðri í andyri. Hún gerði ráð fyrir að þarna væru laganna verðir mættir til að handtaka árásarmann hennar.

Sú varð ekki raunin.

„Ég mætti þeim þarna og var síðan yfirheyrð á lögreglustöðinni. Þeir virtust góðlegir þarna fyrst, þegar þeir voru að spyrja hvað hefði gerst. En síðan fóru þeir allt í einu að spyrja út í skemmdirnar inni á hótelherberginu og hvernig það hefði gerst. Á meðan stóð starfsmaðurinn, nauðgarinn, frammi ásamt hótelstjóranum og fleiri löggum og heyrði í þeim öllum vera að hlæja saman. Ég þurfti að fara með þeim niður á lögreglustöð í kjölfarið. Ég fylgdi þeim út í bíl og þeir læstu dyrunum.“

Eydís segir að á leiðinni niður á lögreglustöð hafi hún sífellt fengið sterkari tilfinningu fyrir því að eitthvað undarlegt væri á seyði. Þegar á lögreglustöðina var komið var hótelstjórinn einnig mættur. Fyrir einskæra heppni hafði Eydís komist í kynni við starfsmann forsætisráðuneytisins nokkrum vikum áður. Hún var ennþá með farsíma sinn á sér og tókst því að hringja í manninn sem hafði í kjölfarið samband við starfsmann íslenska sendiráðsins.

Eydís var færð inn í herbergi þar sem hún sat ásamt þremur lögreglumönnum sem handléku byssur og töluðu saman á tyrknesku. Hún segir ekkert hafa verið skrifað niður og henni hafi aldrei verið tilkynnt að hún ætti rétt á lögmanni. Henni hafi verið útvegaður túlkur sem hún hafi síður en svo getað treyst.

„Ég vissi ekkert hvað fór þeim á milli og hlustaði á hann tala við löggurnar og hlæja með þeim. Ég spurði þá af hverju þeir væru ekki að skrifa neitt niður og af hverju ég væri alltaf að fá sömu spurningarnar. Þeir horfðu bara á mig og sögðu ekkert og sneru sér svo að hver öðrum og töluðu saman.

Eydís stóð engu að síður fast á sínu. „Ég reyndi að heimta lögmann. Ég spurði þá aftur og aftur að þessu og einum tímapunkti stóð ég hreinlega upp og spurði af hverju í ósköpunum þeir væru ekki að skrifa neitt niður.“

Eftir á að hyggja finnst henni ótrúlegt að hún hafi lagt í að setja fram þessar kröfur við tyrknesku lögregluna. „Enda var það alveg augljóst að ég fór rosalega í taugarnar á þeim.

Á einum stað kúguðu þeir mig. Sögðu mér að ef ég myndi kæra, þá myndu þeir kæra mig á móti. Ef ég myndi aftur á móti sleppa því að kæra, þá myndu þeir færa mig á fimm stjörnu lúxushótel.“

Eydís segir nær heilan dag hafa liðið áður en því var komið í kring að hún gengist undir læknisskoðun á sjúkrahúsi. Spítalaheimsóknin reyndist henni afar erfið og segir hún meðferðina þar hafa í raun verið annað áfall.

„Ég upplifði þetta eins og færibandavinnu. Þarna var fjöldi fólks og svo allt í einu var mér sagt að fara úr fötunum. Ég bað um að fá kvenkyns lækni en það var ekki hægt. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu seinna hversu mikið niðurbrot þessi spítalaferð var.“

Þriggja tíma bílferð í kolniðamyrkri

Eftir læknisskoðunina var farið aftur með Eydísi á lögreglustöðina. Við tók marga klukkustunda bið. „Ég fékk ekkert að borða og beið bara og beið. Ég var ekki búin að sofa í tvo sólarhringa.“

Hún segir viðhorf lögreglumannanna á þessum tímapunkti hafa verið heiftarlegt og hún hafi verið sökuð um lygar. Hún hafi því næst fengið á sig kæru fyrir skemmdarverk og neydd til að skrifa undir yfirlýsingu. Því næst tók við myndataka og fingraför hennar voru tekin áður en henni var komið fyrir í lögreglubifreið. Við tók rúmlega þriggja klukkustunda ökuferð í kolniðamyrki þar sem bílstjórinn ók á ofsahraða.

Eydís upplifði sig ósýnilega. „Ég spurði og spurði hvað væri að gerast og hvert ég væri að fara en það svaraði enginn. Mér var bara hent inn í lögreglubílinn og svo keyrðu þeir af stað, rosalega hratt. Ég hélt í alvörunni að ég væri að fara að deyja, ég vissi ekkert hvert væri verið að fara með mig. Beltið mín megin var bilað en bílstjórinn bannaði mér að sitja fyrir aftan hann þegar ég ætlaði að færa mig.“

Tæpum þremur klukkustundum síðar renndi bifreiðin upp að fangelsi í Antalya. „Það tóku á móti mér konur með löggukylfur, enginn talaði ensku og enginn skildi mig. Ég vissi ekkert hvort ég yrði örugg þarna inni. Síðan var allt dótið mitt tekið af mér.“

Eydís endaði að lokum inni í troðfullu herbergi þar sem konur láu sofandi í kojum. Nokkrir dagar liðu þar til hún fékk loks heimsókn frá íslenska konsúlnum í Danmörku.

Hinir fangarnir reyndust vera skrautlegir í meira lagi. Ein konan, írönsk að uppruna, var síhlæjandi, með hárið allt út í loftið og grálúsug. Önnur var stöðugt að berja sjálfa sig í hausinn. Fæstar konurnar töluðu ensku og þurfti Eydís því að eiga samskipti við þær með handabendingum.

Eydís fékk viðurnefnið „Islandia“ í fangelsinu. Hún reyndist vera eina vestræna konan. Það var óneitanlega skondin upplifun: „Ég var einhver vestræn gyðja í þeirra augum. Einu sinni vaknaði ég við það að ein konan stóð yfir mér og starði á mig. Þær vildu allar fá að vera vinkonur mínar og vera í sambandi við mig seinna og koma og hitta mig í Evrópu.“

Bágbornar aðstæður

Eydís átti eftir að komast að því að margar kvennanna sátu inni fyrir litlar eða engar sakir. Margar þeirra voru að flýja lífshættulegar aðstæður. Aðstæðurnar í fangelsinu voru ekki upp á marga fiska.

Hún segist nær ekkert hafa borðað í þá tæpu viku sem hún dvaldi í fangelsinu. „Ég var auðvitað lystarlaus og gat ekki komið neinu niður. Íslenski konsúllinn gaf mér Snickers þegar hann kom og vitaskuld hámaði ég það í mig!“

Eydís segir nokkra daga hafa liðið áður en hún var vakin upp um miðja nótt og keyrð til Alanya þar sem hún var færð fyrir dómar næsta dag. Á leiðinni til Alanya hafi hún hitt fyrsta lögreglumanninn sem sýndi henni einhverja hlýju. „Hann stoppaði bílinn, gaf mér kaffi og var vinalegur. Hann var einn af þeim fáu sem kom fram við mig eins og manneskju.“

Fyrir tilstilli kunningja Eydísar hjá forsætisráðuneytinu gekk málsmeðferð hennar hraðar fyrir sig en annars hefði verið.

Niðurstaða þarlendra yfirvalda var að vísa Eydísi á brott úr landi. Nokkrum dögum síðar var hún því sótt í fangelsið um miðja nótt og keyrð upp á spítala í skoðun. Næsta dag var hún flutt í lögreglufylgd upp á flugvöll. Hún var meðhöndluð sem glæpamaður; lokuð inni í herbergi á flugvellinum áður en henni var fylgt vegabréfslausri út í flugvél.

Eftir að hafa verið dögum saman í svelti notaði Eydís tækifærið í flugvélinni og pantaði allt það sem hugurinn girntist af matseðlinum. Í Leifsstöð beið íslenska lögreglan hennar. „Utanríkisráðuneytið er bundið þagnarskyldu og þess vegna vissi lögreglan ekki af hverju það væri verið að flytja mig heim. Þeir héldu að ég væri glæpamaður.“

Móðir Eydísar og systir tóku á móti henni á flugvellinum og þaðan fór Eydís beint í læknisrannsókn á spítala.

Gallað kerfi

Hún segir enga eftirmála hafa verið af þessum atburðum. Nauðgarinn gengur enn laus.

Í nokkur ár lokaði Eydís á þennan atburð og sagði einungis nánustu aðstandendum frá því sem kom fyrir hana í Tyrklandi. Það vildi svo heppilega til að hún hafði leitað til sálfræðings áður en hún fór til Tyrklands. Með hans hjálp tókst hún á við áfallið, meðal annars með því að skrifa niður það sem hafði gerst og vinna þannig úr reynslunni. Hjá sálfræðingum gekkst Eydís einnig undir EMDR sálfræðimeðferð (e. Eye Movement Desensitization and Reprocessing) sem þar sem flakkað er á milli hægra og vinstra heilahvels eða þess vitsmunalega og tilfinningalega.

Hún bendir á að brotaþolar kynferðisofbeldis séu oftar en ekki upp á sjálfa sig komnir þegar kemur að því að leita sér hjálpar og finna hvaða úrræði eru í boði. Það var til að mynda sálfræðingi hennar að þakka að hún komst að því að hægt væri að fá áfallaaðstoð greidda í gegnum heimilistryggingu.

„Hér heima er kerfið gallað á annan hátt. Þolendur þurfa oft að bíða mánuðum, jafnvel árum saman, eftir því að mál þeirra rati fyrir dóm og eru í andlegu fangelsi á meðan. Það er ekki hægt að bera saman ólík kerfi en þó er hægt að hafa hátt um ofbeldið sem á sér stað í kerfinu hér heima og benda á hvað hægt sé að gera betur.“

Þjáningunni breytt í list

Eydís hefur unnið í kvikmyndagerð í gegnum tíðina. Upp úr dagbókarskrifum hennar vaknaði hjá henni sú hugmynd að gera stuttmynd byggða á reynslu hennar í Tyrklandi. Breyta þjáningunni í list.

Frá tökum á Islandia á Spáni

Og nú hefur stuttmyndin Islandia litið dagsins ljós, þar sem leikkonan Þóra Karítas Árnadóttir fer með aðalhlutverkið. Tökur á myndinni fóru fram í gömlu fangelsi í Segovia, fjallabæ norður af Madrid á Spáni. Ekki kom til greina að taka myndina upp í Tyrklandi þar sem Eydísi hefur verið meinað að stíga fæti inn í landið. Framleiðsla myndarinnar var stór í sniðum, hópurinn á bak við telur um fimmtíu til sextíu manns frá Íslandi, Spáni, Kanada og Tyrklandi.

Þóra Karítas Árnadóttir fer með aðalhlutverkið í Islandia, sem byggð er á reynslu Eydísar í Tyrklandi

„Lengst af þá sleppti ég því að segja að sagan væri byggð á minni reynslu, og meira að segja fólk í tökuliðinu vissi það ekki. Núna í dag er ég opin með að þetta sé byggt á mér. Það er ekkert leyndarmál lengur.“

Þessa dagana stendur yfir styrktarsöfnun á síðu Karolina Fund sem miðar að því að koma Islandia í dreifingu á kvikmyndahátíðir víða um heim en myndin hefur þegar verið sýnd á kvikmyndahátíðinni í Austin við frábærar undirtektir.

„Eins og staðan er núna hjá okkur fór allt okkar fjármagn í framleiðsluna og þess vegna ákváðum við að fara þessa leið, þar sem það var tímabært að dreifa sögunni almennilega og af fullum krafti. Það er mikill plús fyrir mig, eða ég er að átta mig akkúrat á þessu augnabliki á að það er mikilvægt fyrir mig að ræða söguna opinberlega. Því segir sig sjálft að það er engu líkt að geyma sögu eins og þessa inni í sér. Kostnaðurinn hefur vaxið mikið og það kostar sitt að fara með mynd á hátíðir erlendis,“ segir Eydís.

Líkt og Eydís bendir á þá er Islandia alþjóðleg saga.

„Það sem ég lenti í, það kemst ekki nálægt þeim hryllingi sem konur eru að lenda í úti allan heim. Þetta málefni er ekki bundið neinum landamærum, það er ekki tengt einhverjum einum heimshluta eða trúarbrögðum. Ofbeldi gagnvart konum er glæpsamlegt og það snertir okkur öll.“

Hér má finna hlekk á söfnunina á vef Karolina Fund en þar er einnig hægt að lesa nánar um verkefnið. Söfnunin stendur yfir til 15.febrúar næstkomandi.

Með söfnuninni vilja Eydís og aðrir aðstandendur myndarinnar einnig styðja við Elfusjóð en hluti af söfnuninni mun fara í sjóðinn, sem aðstoðar konur að leita réttar síns í ofbeldismálum hér á Íslandi. Með söfnuninni vilja Eydís og aðrir aðstandendur myndarinnar einnig styðja við Elfusjóð en hluti af söfnuninni mun fara í sjóðinn, sem aðstoðar konur að leita réttar síns í ofbeldismálum hér á Íslandi.

Á heimasíðu Elfusjóðs segir:

„Þegar einstaklingur verður fyrir alvarlegu ofbeldi, s.s. kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða „götuofbeldi“ hefur það yfirleitt í för með sér talsvert fjárhagslegt tjón. Oft verða brotaþolar óvinnufærir, til lengri eða skemmri tíma, og kostnaður vegna læknisþjónustu, sjúkraþjálfun, sálfræðimeðferð o.þ.h. er fljótur að safnast upp.

Það getur reynst brotaþola erfitt að sækja rétt sinn beint til tjónvalds og því hefur ríkið komið á fót svokölluðum Bótasjóð. Bótasjóður hefur það markmið að starfa sem einskonar milliliður milli brotaþola og geranda. Þannig geta þolendur ofbeldis sótt bæturnar til Bótasjóðs sem síðan sækir þær á hendur geranda, þ.e. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Til þess að brotaþolar geti sótt þennan rétt sinn, þ.e. til fullra bóta, verða þeir að gangast undir læknismat. Það er gert til svo meta megi tjónið út frá reglum skaðabótalaga þannig að brotaþoli hvorki hagnist né tapi á tjóninu. Um er að ræða mikla réttarbót fyrir brotaþola.

Sá hængur er þó á framkvæmdinni að brotaþolar þurfa sjálfir að leggja út fyrir læknismatinu, sem síðar er greitt af Bótasjóð, þ.e. komist læknar að því að fjárhagslegt tjón hafi hlotist af ofbeldinu. Matsgerðir hlaupa yfirleitt á hundruðum þúsunda sem er stór fjárhagslegur þröskuldur fyrir flesta brotaþola. Afleiðingar þess eru að brotaþolar geta ekki sótt þennan rétt, þeir brenna út á tíma og enda á að þurfa að bera allt tjónið sjálfir. Sem er ekki aðeins skaðlegt brotaþola og nærumhverfi hans heldur samfélaginu í heild sinni. það er því til mikils að vinna.

Allir geta sótt um í sjóðinn þó brotaþolar kynferðisbrota og heimilisofbeldis verði fyrst um sinn í forgangi. Bæði fullorðnir og börn. Umsóknir verða yfirfarnar af sérfræðingum í skaðabótarétti og áhersla lögð á gegnsæi og fagleg vinnubrögð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“