Algengar mýtur og dæmi um meðferðir
Talið er að 5 til 15 prósent kvenna yfir fertugt séu með meiri eða minni þvagleka, en mjög fáir karlmenn. Þvagleki er eitt af þessum algengu vandamálum sem verða stærri en efni standa til vegna þess að þau eru feimnismál. Þeir sem ekki leita til læknis eftir aðstoð, fá hana eðlilega ekki. Staðreyndin er hins vegar sú að í langflestum tilfellum er hægt að lækna þvagleka að mestu eða öllu leyti með tiltölulega einföldum aðferðum og ef þær duga ekki til er hægt að gera skurðaðgerð.
Ýmiss konar misskilningur er ríkjandi um þvagleka, til dæmis að þvagleki hrjái einungis aldraða, engin lækning sé til eða þvagleki fylgi barneignum og elli. Ekkert af þessu á við rök að styðjast þó einkennin geti komið fram undir framangreindum kringumstæðum.
Eitt besta ráðið við þvagleka hjá konum á öllum aldri eru grindarbotnsæfingar, en auðvelt er fyrir lækni að finna hvort verið sé að þjálfa rétta vöðva. Sumir eru með truflun á starfsemi þvagblöðrunnar og þurfa á blöðruþjálfun að halda.
Meðferð með hormónum eftir tíðahvörf hefur náð talsverðum vinsældum á síðari árum og eitt af því jákvæða er að þessi hormón geta minnkað eða jafnvel læknað þvagleka. Einnig eru til annars konar lyf sem auka rými þvagblöðrunnar og styrkja vöðvana umhverfis blöðrubotninn. Ef þessi ráð duga ekki má gera skurðaðgerð og er um nokkrar mismunandi aðgerðir að ræða og þarf að velja þá aðgerð sem hentar hverju sinni.