Sigurður Laufdal er 35 ára gamall, hann ólst upp við tónlist og hefur sjálfur fengist við hana frá því hann var krakki. Í dag eru börn hans komin í tónlistina með föður sínum, en þau hafa þegar gefið út fjögur lög: þrjú frumsamin, auk ábreiðu af einu þekktasta lagi Bubba.
„Verkefnið hófst þannig að dóttir mín, Kristjana, fór í tvígang að gráta þegar hún var hjá mér. Þá var hún sex ára gömul. Ég ræddi málið við mömmu hennar, sem ræddi við skóla dótturinar,“ segir Sigurður.
Niðurstaðan var sú að dóttirin væri með listrænan huga sem væri farinn að flakka eitthvað og samdi Sigurður lag handa henni til að útskýra hvernig það virkar. „Ég vildi útskýra fyrir henni hvernig listrænn hugur virkar, þannig að ég tók textann út frá henni. Hún var búin að segja við mig að henni fyndist allt lifandi og var farin að telja upp ljósastaura, grindverk og fleira. Þannig að ég tók textann út frá henni og það er lína í laginu hennar út frá því.“
Svo vel tókst til að þau fóru í stúdíó til að taka lagið upp. Á leiðinni í stúdíóið, kviknaði áhugi hjá syni Sigurðar, Mikael Mána, sem þá var sjö ára. „Ég sagði að ef hann langaði að vera með þá gætum við gert hvað sem er fyrir hann. Hann langaði að rappa þannig að ég samdi bara annað lag fyrir hann og skrifa textann út frá honum.“
Í kjölfarið sá Sigurður sér leik á borði að búa til fjöllistahóp úr litlu fjölskyldunni þar sem þau fengju öll vettvang til að tjá sig og skapa. „Hópurinn heitir VOR sem stendur fyrir Vitund okkar rís og er settur saman til að skapa og hafa gaman. Þau eru með sitt hvort lagið, síðan er komið lagið Hugsanir þínar, sem söngkonan Brynja Lísa syngur með mér og nú síðast tókum við upp ábreiðu af lagi Bubba, Blindsker.
„Mamma var ekki í tónlist sjálf, en hlustaði mikið á Bubba þegar ég var krakki og gerir enn í dag og hann var mikill áhrifavaldur á tónlistina hjá mér. Það var því gaman að gera ábreiðu af lagi hans.“
Sigurður fékkst við tónlistina sjálfur frá því hann var krakki og kom fram á árum áður undir nafninu Siggi Lauf. „Ég spila á gítar og er einnig að vinna á tölvu með synthesisera, ég hef lítið fengist við tónlistina síðan krakkarnir fæddust, en er að komast í gang aftur. Og þetta verkefni með þeim er til gamans gert. Þau hafa rosalega gaman af þessu og sökkva sér með mér í sköpunina og það eru alger forréttindi að fá að gera þetta með börnunum sínum,“ segir Sigurður og segir börn sín hlusta bara á tónlist eins og gerist og gengur, auk þess sem Kristjana leikur sér að því að gera myndbönd í hinum ýmsu öppum.
Sigurður áætlaði sér fjórar vikur í að kenna börnum sínum lögin. „Þau lærðu hins vegar bæði lög og texta samdægurs.“
Engin frekari plön eru um lagaútgáfu hjá Sigurði og börnum hans. „Þetta er bara vettvangur til að tjá sig,“ segir Sigurður og hefur þríeykið ekki komið fram og spilað og ekkert slíkt í undirbúningi. „Þetta er aðallega bara listsköpun, sem átti upphaflega að vera fyrir vini og ættingja, en það tókst svo vel til að ég útbjó rás á YouTube, VOR Vitund okkar rís. Þau vilja bæði skapa og una sér vel í því með mér.“