Margir finna fyrir öfund og vanlíðan á þessum árstíma
Það að skoða Facebook of mikið yfir jólahátíðina og sjá allar þessar fullkomnu fjölskyldur mun líklega valda þér meiri vanlíðan heldur en gleði.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem var gerð við háskólann í Kaupmannahöfn. Þar er fólki ráðlagt að taka sér jólafrí frá samfélagsmiðlum til að fyrirbyggja öfund og aðrar óþægilegar tilfinningar. Þá eiga margir það til að bera sig saman við annað fólk, með því að bera sitt líf saman við samfélagasmiðla-tilveru annarra. Það getur haft mjög neikvæðar afleiðingar á sjálfsmynd viðkomandi.
Þá vara vísindamennirnir sem framkvæmdu rannsóknina fólk sterklega við því að einangra sig á þessum árstíma og nota tímann til að sökkva sér ofan í samfélagsmiðla.
Meira en 1000 þátttakendur, mestmegnis konur, tóku þátt í rannsókninni. Margar voru sammála um að reglubundin notkun á samfélagsmiðlum stuðli að neikvæðri líðan, öfund og minnimáttarkennd.
Ef þú tengir við það sem kemur fram hér að ofan þá ráðleggja vísindamennirnir þér að sleppa því alfarið að fara inn á samfélagsmiðla í eina viku.
Það er að segja ef þú getur staðist freistinguna að skoða alla þessa sjálfumglöðu vini þína sem eru í draumafríinu þínu, umvafin fjölskyldu og góðum vinum.