fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Pressan

Átökin á Norður-Írlandi

Pressan
Sunnudaginn 18. febrúar 2024 16:00

Vandræðin Þúsundir létust og tugþúsundir særðust.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

The Troubles, sem má útleggja sem Vandræðin á íslensku, á Norður-Írlandi hófust í október 1968 þegar efnt var til mannréttindagöngu í Londonderry og þeim lauk með friðarsamningnum sem kenndur er við föstudaginn langa þann 10. apríl 1998. The Troubles voru blóðug átök fylkinga á Norður-Írlandi. Í brennidepli átakanna var staða Norður-Írlands. Sumir vildu að landið yrði áfram hluti af Bretlandi en aðrir vildu sameinast Írlandi.

Markmið sambandssinna, sem eru að stærstum hluta mótmælendatrúar, var og er að Norður-Írland verði áfram hluti af Stóra-Bretlandi. Markmið þjóðernissinna og lýðveldissinna, sem eru að stærstum hluta kaþólskir, var og er að Norður-Írland verði hluti af Írlandi. Þrátt fyrir að mótmælendur og kaþólikkar hafi skipað sér í andstæðar fylkingar í þessum átökum þá voru átökin ekki af trúarlegum meiði heldur snerust þau um hvernig stjórnskipunarleg staða Norður-Írlands ætti að vera. Á bak við deilurnar voru tvö mismunandi sjónarhorn á þjóðernisvitund og hvoru landinu hóparnir vildu og töldu sig tilheyra.

Í átökum hópanna, sem lögregla og her blönduðust inn í, misstu rúmlega 3.600 manns lífið og allt að 50.000 manns særðust líkamlega. Þá er ótalinn allur sá fjöldi sem varð fyrir sálrænum áföllum.

Árið 1968 höfðu sambandssinnar ráðið lögum og lofum á þingi Norður-Írlands í rúmlega fimmtíu ár. Þinginu gekk illa að leysa úr félagslegum og pólitískum ágreiningsefnum, þar á meðal mismunun sem kaþólikkar sættu hjá opinberum stofnunum. Aðgerðir þingsins í þessum efnum voru of hægar að mati margra þjóðernissinna og lýðveldissinna og of hraðar að mati margra sambandssinna. Þetta orsakaði aukna spennu hjá báðum hópunum og ofbeldisverk voru unnin á báða bóga. Þessi aukna spenna og stjórnleysi varð til þess að breskar ríkisstjórnir gripu oft inn í málin. Árið 1969 var staðan orðin svo alvarleg að breskir hermenn voru sendir til Norður-Írlands til að koma á lögum og reglu. En ástandið versnaði enn og 1972 leysti breska ríkisstjórnin norðurírska þingið upp og tók stjórn landsins yfir. Eftir að hafa verið í útjaðri breskra stjórnmála áratugum saman var Norður-Írland nú orðið miðpunkturinn.

Átökin

Á þessum tíma var Provisional Irish Republican Army (PIRA), sem var aðalhernaðararmur lýðveldissinna, allt annað en áhugasamur um lausnir á málunum nema þær fælu í sér að Bretar létu Norður-Írland af hendi og að Norður-Írland myndi sameinast Írlandi. PIRA hafði klofið sig frá „Official IRA“ 1969 og var yfirleitt nefndur IRA eftir það. Í huga IRA var eina lausnin stríð en þessi hugmynd hafði fengið byr undir báða vængi eftir að ný lög voru kynnt til sögunnar 1971, sem heimiluðu yfirvöldum að fangelsa fólk án undangenginna réttarhalda, og í kjölfar drápsins á 13 manns sem breskir fallhlífahermenn skutu til bana á hinum blóðuga sunnudegi, Bloody Sunday, 1972. Eftir að leynilegar viðræður við bresk stjórnvöld fóru út um þúfur 1972 ákváðu leiðtogar IRA að grafa undan stjórn Breta á Norður-Írlandi með því að efna til minniháttar átaka og stunda skærur. Stærstu hreyfingar sambandssinna, Ulster Defence Association (UDA) og Ulster Volunteer Force (UVF), höfðu ákveðið að beita ofbeldi í baráttu sinni gegn lýðveldissinnum og til að koma í veg fyrir sameiningu við Írland. Vaxandi ofbeldi og sífellt flóknari staða varð til þess að lokatilraun var gerð til að ná sáttum.

Bein stjórn Breta á Norður-Írlandi var talin vera skammtímalausn og fljótlega var hafist handa við að endurreisa sjálfstjórnina. Fyrsta stóra tilraunin til þess var gerð 1973 með hinum svokallaða Sunningdale-samningi sem kvað á um að deiluaðilar myndu deila völdum og stýra landinu. Aðeins þrír flokkar tóku þátt í viðræðunum og samningurinn var ekki langlífur því hann hrundi til grunna snemma árs 1974. Þrátt fyrir að Sunningdale-samningurinn hafi ekki orðið langlífur var hann mikilvægur því í honum voru ákveðin atriði sem komu að góðum notum þegar friðarsamningurinn var gerður 1998.

Samningur Breta og Íra

Ofbeldi fór stigvaxandi eftir að Sunningdale-samningurinn var úr sögunni og reyndu breskar ríkisstjórnir að ná pólitísku samkomulagi um framtíð Norður-Írlands við heimamenn en þó aðeins þá stjórnmálaflokka sem breska ríkisstjórnin taldi „löglega“ og ekki fylgjandi ofbeldi.

Bresk-írski samningurinn, Anglo-Irish Agreement, 1985 var tilraun til að ná pólitískum sáttum sem gætu leyst málin. Samkvæmt honum fékk írska ríkisstjórnin ákveðið ráðgjafahlutverk í málefnum Norður-Írlands og kvað á um að engar breytingar myndu verða á stjórnarskrárlegri stöðu Norður-Írlands. Það þýddi að írsku ríkin myndu ekki sameinast án samþykkis íbúa beggja ríkja. Sambandssinnum hugnaðist þessi samningur illa og þeir vildu ekki sjá aðkomu írsku ríkisstjórnarinnar og hvað þá að deila völdum með andstæðingum sínum. Aðeins tveir stórir stjórnmálaflokkar studdu samninginn. Sinn Fein, stjórnmálahreyfing IRA, var jafn mikið á móti samningnum og sambandssinnar. Flokkurinn hafði vaxið og öðlast meiri áhrif með árunum. Sinn Fein sá um pólitíska baráttu á meðan IRA sá um vopnaða baráttu lýðveldissinna.

George Mitchell
Leiddi deiluaðila saman að undirlagi Bills Clinton Bandaríkjaforseta.

Friður að lokum

Árið 1996 tókst loksins að fá deiluaðila að samningaborðinu til að ræða saman af fullri alvöru. Ákveðið pólitískt raunsæi og stríðsþreyta varð til þess að viðræðurnar gátu hafist. Það skipti einnig miklu máli að Bill Clinton, þáverandi forseti Bandaríkjanna, tók virkan þátt í viðræðunum og útnefndi George Mitchell, fyrrverandi öldungadeildarþingmann, sem fulltrúa Bandaríkjanna í viðræðunum. Margir sambandssinnar töldu algjörlega óásættanlegt að sest væri að samningaborðinu með Sinn Fein og tók flokkur Ians Paisley, Democratic Unionist Party, ekki þátt í viðræðunum en tók síðan sæti á þingi í kjölfar friðarsamningsins sem náðist 1998. Samkvæmt honum samþykktu báðar fylkingar að deila völdum og stuðla að friði. Samið var um að breytingar á stjórnskipunarlegri stöðu Norður-Írlands, sameining við Írland, verði aðeins að veruleika ef slík tillaga verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslum beggja vegna landamæranna og að þær verði haldnar samtímis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Neyddu drengi til að brjóta kynferðislega á smábarni

Neyddu drengi til að brjóta kynferðislega á smábarni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Piers Morgan biður grenjandi vinstri menn vinsamlegast um að halda kjafti – „Ég er kominn með nóg af þessu“

Piers Morgan biður grenjandi vinstri menn vinsamlegast um að halda kjafti – „Ég er kominn með nóg af þessu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn