Ódýrasti bjórinn í flösku er færeyskur
Nú er jólabjórinn kominn í Vínbúðirnar en hann vekur jafnan mikla athygli. Í ár verða um það bil 50 tegundir af jólabjór til sölu.
Í síðasta helgarblaði DV hlaut Giljagaur frá Brugghúsinu Borg hæstu meðaleinkunn í árlegri jólabjórssmökkun blaðsins.
Silfurverðlaunin komu í hlut Einstök Winter ale og fast á hæla hans fylgdi sjálft Fagnaðarerindið frá Bryggjunni brugghúsi. Þetta var niðurstaða sérskipaðrar dómnefndar DV en í henni sátu Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar og fyrrverandi fjölmiðlakona. Erpur Eyvindarson tónlistarmaður, Gunn
ar Jónsson (Gussi) leikari, Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS, og Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, verkefnastjóri hjá Listaháskóla Íslands og kennari í Bjórskólanum.
Dýrasti 750 ml jólabjórinn, sem fæst í Vínbúðinni í ár, er Red White Christmas frá Mikkeller. Hann kostar 1847 krónur. Næst á eftir kemur Corsendonk Christmas á 1690 krónur. Ódýrastur í þessum flokki er Fagnaðarerindið á 1498 krónur.
Dýrasti 500 ml jólbjórinn, sem fæst í Vínbúðinni í ár, er Einstök Winter Ale en hann kostar 888 krónur.
Ódýrasti 500 ml jólabjórinn, sem kemur í gleri, eru Bah Humburg Christmas Cheer og Shepherd Neame Christmas Ale. Báðir kosta 699 krónur.
Dýrasti 330 ml jólabjórinn í gleri, sem fæst í Vínbúðinni í ár, er 24 Barley Wine frá Ölvisholti. Hann kostar 798 krónur.
Ódýrasti 330 ml bjórinn í gleri er færeyski bjórinn Föroya Bjór Jólabryggj. Hann kostar 331 krónu.
Harboe Jule Bryg frá Danmörku er allra ódýrasti jólabjórinn í ár. Hann er fáanlegur í 33.cl dós og kostar 239 krónur.