Í fréttatilkynningu frá saksóknara kemur fram að þrír hafi verið ákærðir fyrir að hafa ætlað að búa til sprengjur með efnunum sem þeir höfðu viðað að sér. Ætlun þeirra hafi verið að „drepa og særa fólk“. Ef af árásinni hefði orðið hefði það haft alvarleg áhrif á Svíþjóð segir í fréttatilkynningunni. Sexmenningarnir eru allir ákærðir fyrir að hafa safnað peningum til handa IS.
Sexmenningarnir eru allir frá Úsbekistan og Kirgistan. Að minnsta kosti einn þeirra tengist Rakhmat Akilov sem afplánar nú lífstíðarfangelsisdóm í Svíþjóð fyrir hryðjuverkaárás í Stokkhólmi í apríl 2017 en þá drap hann fimm manns og særði 14 þegar hann ók flutningabíl á fótgangandi fólk í Drottningargötu.