Þriggja ára rússneskur drengur, Mikhail Osipov, hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum eftir að hafa komið fram í skemmtiþætti þar í landi. Þátturinn sérhæfir sig í því að þar koma undrabörn reglulega fram og láta ljós sitt skína. Snilligáfa Mikhails litla felst í taflmennsku og í þættinum atti hann kappi við fyrrverandi heimsmeistara og Íslandsvin, Anatólí Karpov. Sá stutti stóð sig vel og brást á aðdáunarverðan hátt við ýmsum hótunum heimsmeistarans, að minnsta kosti miðað við ungan aldur. Styrkleikamunurinn var þó nokkur enda er Karpov enn afar sterkur stórmeistari skák.
Heimsmeistarinn fyrrverandi var sýnilega uppnuminn yfir hæfileikum drengsins og svo fór að hann bauð guttanum jafntefli, þrátt fyrir að vera með betra tafl. Því hafnaði Mikhail litli snarlega en svo fór að lokum að hann féll á tíma og tapaði skákinni. Hann tók þá í útrétta hönd heimsmeistarans fyrrverandi en fór síðan að lokum að hágráta og kallaði á mömmu sína sem kom að vörmu spori.
Eftir að hafa jafnað sig í stutta stund þá tók sá stutti gleði sína á ný og hlaut áritaða skákbók að gjöf. Þá var skákþraut varpað upp á stóran skjá þar sem hvítur átti að máta í þremur leikjum. Sá stutti leysti verkefnið auðveldlega. Því var fylgt á eftir með tveimur mun erfiðari þrautum og hinn þriggja ára gamli Mikhail leysti þær nánast án umhugsunar.
Ljóst er að skákáhugamenn þurfa að leggja nafnið Mikhail Osipov á minnið.