Það virðist hafa verið afleikur hjá Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra að láta undan Sjálfstæðismönnum og taka við þeim bitra kaleik vegtolla sem forveri hans, Jón Gunnarsson, bar á borð. Gæti hann hafa blindast af vilja norðanmanna til að borga toll í hin nýju Vaðlaheiðargöng. Lengi hafði verið beðið eftir þeim göngum og heimamenn viljugir að greiða nánast hvað sem er til að keyra í gegnum þau.
Sunnanmenn eru aftur á móti nýhættir að greiða í Hvalfjarðargöngin og þá á að setja upp nýtt hlið sem mun standa um óákveðinn tíma. Þetta mun bitna harðast á íbúum í nágrannasveitarfélögum við höfuðborgarsvæðið. Þar hafa Framsóknarmenn víða verið sterkir, sérstaklega á Akranesi, Borgarnesi og í Árborg. Hugsa flokksmenn þar nú Sigurði þegjandi þörfina þar sem aðgerðin virðist ætla að verða mjög óvinsæl.