fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Eyjan

Völvan 2019: Már riðar til falls, hneykslismál trúfélags og meiri spilling hjá Reykjavíkurborg

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 2. janúar 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í desember 2018 hélt blaðamaður DV á fund spákonunnar sem reyndist svo sannspá á síðasta ári. Hún býr í litlu grænmáluðu húsi rétt fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Hún kemur til dyra og heilsar hlýlega og býður blaðamanni til stofu. Sem fyrr er kristalskúlan góða á stofuborðinu. Það er vistlegt og jólalegt hjá völvunni sem segir blaðamanni að hún sé mikið jólabarn og hafi alltaf verið. Hún býr ein en eiginmaður hennar lést fyrir einhverjum árum. Aðspurð segist hún halda jólin hátíðleg á heimili sonar síns og tengdadóttur í Kópavogi. Blaðamaður fær sér sæti í IKEA-sófanum og völvan sest andspænis honum. Eins og á síðasta ári vekja augu völvunnar sérstaka athygli blaðamanns, þau eru ekki bara góðleg, það er hreinlega eins og þau sjái í gegnum holt og hæðir. Hér má lesa brot úr spá völvunnar fyrir árið 2019:

Angist seðlabankastjóra áþreifanleg

„Það er mikill órói í kringum Má. Angist hans er nánast áþreifanleg,“ segir völvan og skírskotar þar til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Öllum er ljóst að Már hefur átt í vök að verjast undanfarin misseri í kjölfar þess að Hæstiréttur staðfesti dóm úr héraði um að fella niður 15 milljóna króna stjórnvaldssekt á hendur Samherja þann 8. nóvember síðastliðinn. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur farið fram á að Már verði leystur frá störfum vegna málsins og meira að segja lýst því yfir að hann telji að bankastjórinn eigi að vera dæmdur til fangelsisvistar. Á dögunum fór Þorsteinn Már á fund bankaráðs Seðlabankans og má búast við að greinargerð ráðsins vegna málsins verði birt í byrjun næsta árs.

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri.

Völvan spáir því að Már muni ekki kemba hærurnar þegar greinargerðin kemur upp. „Í draumi sá ég hann fyrir mér standandi ásamt samherjum sínum gegn mun öflugri her. Þegar hermenn andstæðingsins blésu í herlúðra og ruddust fram þá leit Már aftur fyrir sig og sá þá að félagar hans höfðu látið sig hverfa og hann stóð einn gegn ofureflinu. Eða nokkurn veginn einn, við hlið hans stóðu tvær konur, önnur ung og ljóshærð en hinn eldri og virtist halda á þykkri bók, gott ef þetta var ekki Grágás. Þeirra virðast bíða sömu örlög og Más,“ segir völvan ábúðarfull. Hún og blaðamaður eru sammála um að draumurinn hljóti að þýða endalok Más hjá Seðlabankanum. Hafa verður í huga að ráðningarsamningur Más rennur út um mitt næsta ár og því er stóra spurningin sú hvort hann fái að klára samninginn. „Hann mun að sjálfsögðu reyna að hanga á embættinu eins og hundur á roði, enda væri annað of mikil niðurlæging. En það mun reyna verulega á og með öllu óvíst að það takist. Hann mun þó ná að forðast fangelsisvist eins og hatursmenn hans þrá,“ segir völvan.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Ekki öll kurl komin til grafar í Braggamálinu

Braggamálið svokallað beindi kastljósinu að gjörspilltum embættismönnum innan stjórnkerfisins og að sögn völvunnar eru ekki öll kurl komin til grafar. „Það á ýmislegt eftir að koma upp á yfirborðið varðandi verk Hrólfs Jónssonar. Meðal annars mun mál tengt honum og Valsmönnum vekja athygli. Þá mun Braggamálið einnig enda á borði lögreglunnar,“ segir völvan.

Hrólfur Jónsson.

Sala ríkiseigna vekur athygli

Þá segir hún að fleiri dæmi um spillta embættismenn muni koma upp á yfirborðið, sérstaklega tengd sölu ríkiseigna. „Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, hefur verið óþreytandi við að berjast fyrir upplýsingum um hverjir keyptu fullnustueignir Íbúðalánasjóðs á árunum eftir hrun. Þorsteini verður ágengt í þessari baráttu sinni og upplýsingarnar munu vekja verulega athygli,“ segir völvan.

Þorsteinn Sæmundsson.

Hvítbók veldur usla

Þá sér völvan mikla ólgu í kringum útgáfu hvítbókar um heilbrigðismál. „Það verður mikill núningur milli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Deilan mun að mestu leyti fara framhjá almenningi en mun valda ráðherranum talsverðum vandræðum,“ segir völvan.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Styttist í nýjan biskup

Mikið hefur gengið á innan íslensku þjóðkirkjunnar undanfarið. Meðlimum fækkar á hverju ári og ýmis hneykslismál hafa komið upp á yfirborðið, til dæmis mál sem varðar séra Þóri Stephensen sem vakti mikla athygli á síðasta ári. Viðbrögð kirkjunnar hafa verið slæleg og æðstu leiðtogar hlotið skömm í hattinn fyrir, sérstaklega Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. „Ég sé áframhaldandi óróa innan þjóðkirkjunnar og sérstaklega í kringum Agnesi. Það er sístækkandi fylkingin innan kirkjunnar sem telur að hún sé ekki hæf til að gegna embættinu. Aðallega vegna þess að hún er of hrædd við að taka erfiðar ákvarðanir og takast á við brýn en óþægileg verkefni. Þá hefur hún safnað að sér hirð ráðgjafa sem eru of íhaldssamir að mati margra annarra presta. Það skilur til dæmis enginn hvernig Auður Eir Vilhjálmsdóttir er í áhrifastöðu innan þjóðkirkjunnar. Agnes gæti tórað út árið en það styttist í að nýr biskup verði vígður. Leitin að arftakanum er þegar hafin,“ segir völvan.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

 

Meðlimir trúfélags brjóta á réttindum starfsmanna

Þá sér völvan stórt hneykslismál varðandi annað trúfélag. „Það kemur í ljós að valdamiklir einstaklingar innan safnaðarins hafi brotið á réttindum erlends starfsfólks. Svikið það um réttmæt laun og haldið úti eins konar þrælastarfsemi,“ segir völvan.

Þetta er aðeins brot úr spá völvunnar fyrir árið 2019. Meira er hægt að lesa í Völvublaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir nýja valdablokk í Sjálfstæðisflokknum vilja tafarlausar breytingar

Segir nýja valdablokk í Sjálfstæðisflokknum vilja tafarlausar breytingar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Össur fer mikinn í að greina átökin innan Sjálfstæðisflokksins – Segir að Þórdís Kolbrún hafi gert stór mistök sem muni reynast henni dýrkeypt

Össur fer mikinn í að greina átökin innan Sjálfstæðisflokksins – Segir að Þórdís Kolbrún hafi gert stór mistök sem muni reynast henni dýrkeypt
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Kosning um framhaldviðræður við ESB verði vorið 2025!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Kosning um framhaldviðræður við ESB verði vorið 2025!