fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Atli Steinn og Rósa sluppu með skrámur eftir eldsvoða – „Háðuglegastar hefðu fyrirsagnirnar orðið hefðum við safnast til feðra okkar“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 27. desember 2018 00:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Betur fór en á horfðist hjá Atla Steini Guðmundssyni, prófarkalesara og fréttaritara MBL.is í Ósló, og eiginkonu hans, Rósu Lind Björnsdóttur, í gær, þegar kviknaði í hjá þeim þar sem hjónin lágu í mestu makindum uppi í sófa að horfa á kvikmynd.

Sluppu þau bæði með minni háttar skrámur og hugsar Atli Steinn helst til fyrirsagna norskra fjölmiðla, ef svo hefði farið að hjónin hefðu látið lífið: „Létust yfir norskri kvikmynd“.

Á Facebook-síðu sinni lýsir Atli Steinn atvikinu með gamansömum og litríkum hætti, eins og honum er tamt, enda maðurinn alger orðasnillingur eins og (Facebook)vinir hans vita.

„Minnstu munaði að við hjón létum lífið í eldsvoða í gær, og hefði heimurinn líkast til orðið betri staður á eftir, en þá kom upp stórbruni í sæng hér á heimilinu. Málsatvik voru þau að við lágum afvelta af ofáti í stofusófanum og horfðum á norsku stórslysamyndina Skjelvet (Skjálftinn, 2018) sem fjallar um ólíklegustu hamfarir sem skollið gætu á Ósló, jarðskjálfta, enda borgin svo fjarri næstu flekamótum sem mest má vera. Má þó segja ræmu þessari til hróss að þetta er fyrsta stórslysamynd heimsbyggðarinnar sem húsið okkar sést í hér efst í Ullern-hverfinu.

„Heyrðu, hvur andskotinn!“ hrópaði spúsan er logatungur teygðu sig skyndilega til himins við jaðar sófans. Hafði sæng, er hún hafði yfir sér (þrátt fyrir nánast 30 stiga hita hér innandyra), þá tendrast af logandi kerti á stofuborðinu og var við það að verða alelda. Ég rauk öskrandi upp úr sófanum og blótaði í fyrsta sinn ósjálfrátt á norsku („For helvete!“) um leið og ég þreif sængina og grýtti henni með formælingum í snjóskafl úti á svölum með tilheyrandi reykjarmekki og lék hár hiti við himin sjálfan svo sem lýst var í Völuspá.

Við sluppum með minni háttar skrámur, frúin hlaut þriðja stigs brunasár á handarbaki og bæði erum við áminnt um meðferð opins elds á heiðnum sólstöðuhátíðum hér eftir. Háðuglegastar hefðu þó verið fyrirsagnir norskra fjölmiðla hefðum við brunnið til ösku og safnast til feðra okkar: „Létust yfir norskri kvikmynd.“

Atvikið sýnir að ávallt skal fara varlega með eld á heimilum, sem og annars staðar.

Eftirmáli: greinarhöfundur biðst forláts ef stafsetningarvilla hefur læðst í textann hér að ofan, en treystir þá á að Atli Steinn muni senda tölvupóst með leiðréttingum, þar sem hann starfar jú sem prófarkalesari á Morgunblaðinu. Athugasemdir má einnig skrifa hér fyrir neðan.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“
Fókus
Í gær

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“