Glæddu jólagleði í þínu hjarta
„Aftur hefur tíminn flogið, enn á ný er kominn desember“, syngur söngvarinn Stefán Hilmarsson í einu af jólalögum sínum. Og það hefur tíminn svo sannarlega gert, því að nú styttist óðfluga í næstu jólatónleika Stefáns, sem verða haldnir 8. og 9. desember í Silfurbergi í Hörpu. Miðasala er í fullum gangi á tix.is og ekki seinna vænna að næla sér í miða.
Þetta er fjórða árið í röð sem Stefán blæs til jólatónleika, en hann hefur gefið út tvær jólaplötur, „Ein handa þér“, sem kom út árið 2008 og „Í desember“ sem kom út árið 2014. Flutt verða lög af plötunum í bland við sérvalin hátíðar- og stemningslög héðan og þaðan.
Fyrstu tvö árin hélt Stefán jólatónleika sína í Salnum Kópavogi, þar sem stemningin var eins og að vera heima í stofu hjá kappanum. Aðsókn varð þó það mikil að finna þurfti stærri sal og tókst Stefáni og eiginkonu hans, Önnu Björk Birgisdóttur, sem sér um að skreyta sviðið, vel að galdra fram sömu stemningu í Silfurbergi í fyrra, nándin þar er að miklu leyti góð, þótt salurinn sé töluvert stærri.
Að vanda fær Stefán til sín gestasöngvara og í ár troða upp með honum Jón Jónsson og söngkonurnar Jóhanna Guðrún og Ísold Wilberg. Jón og Jóhanna Guðrún eru landsþekkt og hafa áður sungið með Stefáni, bæði á tónleikum og inn á plötur. Ísold er hins vegar að stíga sín fyrstu skref í tónlistarbransanum. Góðvinir Stefáns sjá um hljóðfæraleik, Þórir Úlfarsson tónlistarstjóri, Pétur Valgarður Pétursson gítarleikari, Friðrik Sturluson bassaleikari og Jóhann Hjörleifsson sér um ásláttarleik.
Jólatónleikar Stefáns Hilmarssonar eru ómissandi þáttur í aðventunni; hlýir, skemmtilegir og heimilislegir tónleikar sem senda mann sáttan, glaðan og í jólaskapi inn í aðventuna. Fyrir aðdáendur Stefáns eru tónleikarnir orðnir nauðsynlegur þáttur í jólaundirbúningnum.
Jóladiskar Stefáns verða til sölu að tónleikunum loknum og mun Stefán árita fyrir þá sem vilja. Einnig glænýja plötu sína, „Úrvalslög“. Sú er tvöföld og geymir 39 lög sem skara fram úr á ferli Stefáns fram til þessa, n.k. þverskurður af því sem hann hefur hljóðritað frá upphafi söngferilsins, jafnt með hljómsveitum sem og sólóefni. Gripurinn inniheldur m.a. nýja lagið, „Þú ferð mér svo ósköp vel“, eitt vinsælasta lag landsins það sem af er ári. „Úrvalslög“ er ómissandi í safnið hjá áhangendum Stefáns.