Einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Stefán Karl Stefánsson, lést þann 21. ágúst síðastliðinn og var þjóðin harmi slegin við fráfall hans. Stefán Karl hafði glímt við ólæknandi krabbamein um langt skeið og háð baráttuna af slíku hugrekki og æðruleysi að eftir var tekið.
Stefán Karl var náskyldur öðrum leikara, Magnúsi Ólafssyni, sem er frægastur fyrir túlkun sína á Bjössa bollu. Magnús er móðurbróðir Stefáns Karls. Sonur Magnúsar, og þannig frændi Stefáns Karls, er einnig þekktur fyrir leikræna tilburði, ekki á sviði heldur í sjónvarpslýsingum. Það er knattspyrnukappinn fyrrverandi, Hörður Magnússon.