fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Bestu kvikmyndir ársins 2018

Tómas Valgeirsson
Miðvikudaginn 2. janúar 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú þegar (bíó)árið er að baki þýðir ekki annað en að gera upp framlög til kvikmyndalistarinnar og sjá hvað upp úr stendur. Hvaða kvikmyndir grættu okkur mest? Hverjar voru þær fyndnustu? Hverjar voru mest spennandi, fallegustu og, svo við gleymum því ekki, hverjar skildu mesta óbragðið eftir sig?

Þetta eru spurningarnar sem flestir reglulegir bíófarar og kvikmyndafíklar eiga að spyrja sig í lok hvers árs.

Undirritaður hlóð í lista sem sigtar út báða enda pólsins. Neðangreindir titlar eru ekki raðaðir eftir númerum/gæðum, heldur stafrófi. Listinn er miðaður við titla kvikmynda sem sýndar eða aðgengilegar voru á Íslandi frá janúarbyrjun á þessu ári til loka desember.

 

10 af bestu myndum ársins 2018

 

Í grimmu stuði – Avengers: Infinity War

Marvel-stúdíóið hefur dritað út myndum undanfarin ár sem hafa mikið skemmtanagildi en fá kannski ekki hrós fyrir djúpa sögu eða flókna karaktera. Þess gerist yfirleitt ekki þörf enda markhópurinn ekki á höttunum eftir slíku. Það voru margir skelfdir yfir þeirri tilhugsun hvernig ætti að vera hægt að búa til kvikmynd með öllum helstu ofurhetjum Marvel-heimsins í öndvegi en það tókst með eftirtektarverðum hætti. Myndin er hlaðin hasar, tæknibrellum og fimmaurabröndurum en er einnig uppfull af eymd, vonleysi og dauðsföllum sem hafa örugglega grætt ófáa í bíósalnum á árinu – auk þess að skilja yngstu hópana eftir í sjokki. Myndin nær ótrúlegu flottu jafnvægi á óteljandi persónum en í lykilhlutverki er skúrkurinn Þanos sem Josh Brolin eignar sér. Meira að segja þó að framhaldsmyndin verði drasl, þá stendur þessi næstum því á eigin fótum sem góð saga um einn geðillan en einbeittan þrjót sem telur sig vera að gera réttan hlut með því að eyða helmingi lífs í alheiminum. Og hvílíkur endir …

 

Gamanleikur og harmleikur – The Death of Stalin

The Death of Stalin er bæði lúmskt fyndin og sprenghlægileg. Hún fjallar um flókin og þung málefni en spinnur alveg snarruglaðan farsa úr þeim. Leikhópurinn er hreinn fjársjóður og er handritið hlaðið hnyttnum frösum en skefur ekki af veruleikanum sem snýr að pólitískum átökum og fjöldamorðum á tímum Stalín. Steve Buscemi er þarna fremstur á meðal jafningja en hann er sérstaklega eftirminnilegur sem Khrushchev í krísu.

 

Slegist um faðmlagið – Paddington 2/ Incredibles 2 

Hér höfum við drengilegt jafntefli á milli tveggja æðislegra fjölskyldumynda, sem báðar eiga það sameiginlegt að vera framhaldsmyndir. Í Paddington 2 ríkir botnlaus jákvæðni, einlægni og fylgir boðskapur með sem kemst hispurlaust til skila án þess að sökkva ofan í melódramatík. Myndin er vel skrifuð, hressilega vel samsett og hugguleg í alla staði. Ein af þeim sem knúsar til baka.

Nýja ævintýri Incredibles-fjölskyldunnar, sem er snéri aftur eftir 14 ára fjarveru, olli ekki vonbrigðum og sýnir allsvakalega hvað Pixar getur á góðum degi. Myndin jaðrar við það að slá út þá upprunalegu og kemur með skemmtilega vinkla á kunnuglegar uppskriftir. Auk þess er teiknistíllinn stórglæsilegur og rýkur orkan í gang með hverjum hasar á eftir öðrum. Þetta er ljúfur pakki og samanlagðar sýna þessar tvær myndir að framhaldsmyndir þurfa ekki að vera glórulausar peningamaskínur.

 

Á bláþræði – Phantom Thread

Hér þarf aðeins að beygja reglurnar. Phantom Thread er í rauninni ekki 2018-mynd en (líkt og nokkrar aðrar í þessari úttekt) var ekki aðgengileg fyrr en í mars-mánuði í fyrra. Skemmst er að segja frá því að hún var ein sú allra dásamlegasta perla sem undirritaður sá í kvikmyndahúsi í fyrra Þessi nýjasta kvikmynd meistarans Paul Thomas Anderson – og jafnframt meintur svanasöngur hins ómetanlega Daniel Day-Lewis – er marglaga, vönduð, óaðfinnanlega leikin og ekki síst bráðskemmtileg dramedía. Myndin segir hnyttna og sérkennilega sögu af valdadýnamík (eitraðs?) sambands, rútínum, málamiðlum og drungalegum mömmusöknuði. Myndin stórfurðulega fyndin í þokkabót og hreint geislar skjáparið af sjarma eða lúmskum töfrum í hverjum ramma.

 

Blaut tuska Baldvins – Lof mér að falla

Einföld í grunninn en mátulega komplex stúdering á trausti, vonleysi, taumhaldsleysi, vítahring neyslunnar og ungri ást. Það munar öllu að erfiðari kaflarnir skila sínu án fyrirlestra og nær myndin að slá á þunga strengi án þess að detta í predikun. Lof mér að falla sameinar helstu styrkleika Baldvins Z í listilega strúktúraða og öfluga skilaboðasögu sem leikur rétt á tilfinningarnar. Áreynslulausa kemistría þeirra Elínar Sifjar Haraldsdóttur og Eyrúnar Bjarkar Jakobsdóttur landar þessu einnig með glæsibrag og leyfir myndinni og sambandi þeirra að koma miklu til skila með afar litlu.

 

Á trippi í hefndarhug – Mandy

Nicolas Cage er hér í biblískum hefndarhug í hreint martraðarkenndu ferðalagi út á ystu nöf. Ofan á þetta brjálæði bætist við eitt besta kvikmyndastef Jóhanns Jóhannssonar heitins (og umrætt stef sækir örugglega
meira í Vangelis en Blade Runner-tónlistin hans hefði gert) og stílbrögð sem sjá til þess að áhorfendur vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Mandy er bæði grafalvarleg og hressilega yfirdrifin og Nicholas Cage fer á kostum. Myndin er einföld í framvindu en margbrotin í táknrænni maníu og yfirþyrmandi dáleiðandi ef þú ert í réttum fíling. Eðlilega er Mandy svo sannarlega ekki tebolli allra, en hún sýnir tært hvað Cage getur verið ógleymanlegur þegar hann er settur í réttan taum. Og hvernig er hægt að segja nei við einu besta einvígi undanfarinna ára, en þar koma keðjusagir (já, í fleirtölu) hressilega við sögu?

 

Sussað til sigurs – A Quiet Place

Hrollvekjan hefur verið á farsælu flugi síðustu árin og slást yfirleitt nokkrar um að bera af á hverju ári. A Quiet Place markar eina af skemmtilegri bíóferðum ársins hjá undirrituðum, þó svo að hún sé sáraeinföld og gölluð í aftari hlutanum, nær hún þó að vera undarlega áhrifarík frá byrjun til enda. Hún flýgur hátt á frumlegri grunnhugmynd og leikur sér þrælskemmtilega með þagnir og hljóðvinnslu sem gerir hana nánast að nýstárlegri þögulli mynd. Hún snýst í rauninni meira um fjölskyldutengsl en skrímsli eða dystópíu; um samskiptaleysi, missi, samviskubit og ýmislegt sem nánir ættingjar láta ósagt. Aðalleikarar myndarinnar  bæði hjónakornin og krakkarnir eiga stórleik. Sannfærandi barnaleikarar eru yfirleitt algjör rúlletta í hryllingsmyndum og hér er ekki feilnóta slegin.

 

Minna gefur meira – Roma

Nýjasta meistaraverk fagmannsins Alfonso Cuarón sýnir ljúfsára og átakanlega úttekt á samkennd, mannúðleika og kaflaskilum í lífi þeirra persóna sem Cuarón kynnir til leiks. Myndin gerist nánast á sniglahraða og gætir þess að áhorfendur fái að upplifa líf og persónuleika aðalpersónanna. Roma er einnig gullfallega skotin og nær lúmskum og bitastæðum krafti úr svarthvítu kyrrðinni. Myndin er vissulega ekki ætluð hinum óþolinmóðu en útfærslan er sígilt dæmi um notkun myndmáls sem segir meira en djúpar útskýringar. Fegurðin er allsráðandi en ljótleiki heimsins lætur á sér kræla á köflum. Því má segja að myndin sverji sig í ætt við regluna „minna gefur meira“ og í hreinni merkingu orðsins er Roma algjört listaverk.

 

Hið óeðlilega eðlilega móðureðli – Tully

Er grasið alltaf grænna hinum megin? Var lífið miklu betra þegar við vorum yngri? Hvað er það sem vefst fyrir lífi móður í fullu starfi sem er hömluð af svefnleysi og takmarkaðri orku? Í gamandramanu Tully er Charlize Theron algj0rlega upp á sitt allra besta í mynd sem málar sláandi og hreinskilna mynd af ósögðum erfiðleikum foreldrahlutverksins og hvernig það helst í hendur við að viðhalda sér sjálfum á erfiðustu stundum.

 

Hinn frábæri Phoenix – You Were Never Really Here

You Were Never Really Here tekur öðruvísi snúning á tveimur kunnuglegum stefjum, hefndartryllinum og harðsoðnu rökkurmyndinni. Í slíkum myndum er yfirleitt hart ofbeldi fléttað við eins konar spæjarasögu, nema hér er komin mynd sem nálgast hið hrottalega með bítandi og óvenjulegum hætti – og þrátt fyrir allt skiptir söguþráðurinn afskaplega litlu máli. Myndin snýst um andrúmsloft, geðshræringu og ekki síst andlegt ástand aðalpersónunnar sem túlkuð er með eldfimum hætti af Joaquin Phoenix. Sagan hvílir öll á herðum hans og óróleiki hans smitast yfir á áhorfandann. Þessi óróleiki er ef til vill betur sniðinn fyrir áhorfendur sem horfa ekki bara á kvikmyndir sér til afþreyingar en ringulreiðin í kringum karakterinn sem Phoenix skapar er nánast áþreifanleg í hverri senu.

 

Fleiri góðar:
Annihilation, Andið eðlilega, Bad Times at the El Royale, Cold War, Into the Spider-Verse, Mission: Impossible -Fallout, Searching, Sorry to Bother You, Upgrade

 

Þá er komið að botninum … Hér eru fimm verstu

 

Tómir kollar – Fullir vasar

Fullir vasar nær aldrei að komast yfir einn hjalla og heilt yfir má segja að þetta sé meiri vörukynning en bíómynd, með vænan tíma til þess að „plögga“ Domino’s, Vodafone og Húsasmiðjunni, sem dæmi. Myndin sjálf er innihaldsrýr, hálf stefnulaus, þvæld og er lítið gert við persónur sem tengist því ekki að tala út í loftið eða spinna þreytta brandara. Myndin er fjarri því að vera myglað sorp en þó tímasóun fyrir alla sem bæði að henni komu og berja hana augum.

 

Hvað ert þú að gera, Gotti minn?

Hvernig væri útkoman á Goodfellas ef meistari Scorsese hefði verið stanslaust fullur eða sofandi við tökur? En ef hann hefði óvart snýtt sér með handritinu, haft takmarkaða einbeitingu og enn minni meðvitund um línuna á milli alvarleika og óbeinnar skopstælingar. Þá væri afraksturinn þó eflaust skömminni skárri en Gotti; þessi sundurlausa, týnda og grútleiðinlega saga af athyglisverðum glæpon. John Travolta er fullvanur því að vera týndur í burðarrullum, en Gotti markar nýja lægð fyrir leikarann.

 

Leitin að bröndurunum – The Happytime Murders

Þegar þú gerir groddaralega brúðumynd er nauðsynlegt að hafa meira uppi í erminni en nákvæmlega bara þá hugmynd. Áreynsluleysi er vanmetinn galdur í klúrum grínmyndum og það nær The Happytime Murders aldrei að mastera. Myndin svitnar af rembingi í tæpar 70 mínútur en nær samt lítið á þeim tíma að koma með sögu, litríkar persónur eða nógu spennandi framvindu til þess að réttlæta þessa lengd sína þegar hálftími hefði alveg dugað. Það má lengi tönglast á því sem þessi mynd klúðrar, en það hversu ískyggilega ófyndin og fyrirsjáanleg hún er við hvert horn er alvarlegasta brotið.

 

Stjörnuhrap og sjúkdómar sopans – A Star is Born

Undirritaður er í óhuggulegum minnihluta hvað þessa sandpappírsþunnu og fjári hégómafullu alkavælu varðar. Reyndar er hún gædd nokkrum ágætis lögum til að fylla í langdregið og yfirborðskennt handrit þar sem aðdráttur aðalpersónanna minnkar eftir því sem á líður. Jú, Lady Gaga er sjarmerandi og kann að vera hversdagsleg, en rámur og vaggandi Bradley Cooper reynir að hrifsa af henni sviðsljósið við hvert tækifæri. A Star is Born er bæði máttlaus Óskarssegull og lint tilfinningaklám. Áhorfendur sem keppast um að lofa hana eiga eflaust flestir eftir að berja augum frummyndina frá 1937, eða báðar endurgerðirnar sem komu í kjölfarið. Þær eru allar betri en nýja mixið.

 

Mikil predikun, meiri tímasóun – A Wrinkle in Time

Það verður seint illa séð þegar Disney leggur í súr ævintýri en þá þarf helst að vanda til verka í frásögninni. Það er fínn boðskapur grafinn innst inni í þessari aðlögun skáldsögunnar eftir Madeleine L’Engle en leikstýran Ava DuVernay er alveg úti á Klambratúni með sínar áherslur. Myndin er óbærilega væmin og mistúlkar tilgerðarlegt tilvistarstefnuröfl fyrir dramatík og sjarma. Það má einnig lengi spyrja sig handa hverjum myndin var gerð; hún er of barnaleg fyrir fullorðna en of hæg og „artí“ fyrir yngri hópa.

 

Fleiri vondar: Death Wish, The Cloverfield Paradox, The Spy Who Dumped Me, The Nun, Rampage, Solo: A Star Wars Story, Skyscraper, Slender Man, Undir halastjörnu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024