Margir veiðimenn gengu aldrei til rjúpna
Tæplega 800 rjúpnaveiðimenn fóru að jafnaði 2,2 sinnum til veiða á nýyfirstaðinni vertíð. Í könnun sem gerð var á vinsælum vef skotveiðimanna á Facebook var spurt hversu marga veiðidaga veiðimenn eltust við rjúpu. Spurt var: „Hvað fórst þú marga daga á rjúpu í haust?“ Þegar þetta er skrifað hafa 789 svarað könnuninni. Valmöguleikarnir voru dagafjöldi á bilinu 0–12. Niðurstöðurnar leiða í ljós að 28 prósent fóru aldrei á rjúpu. Úr svörunum má líka lesa að 82 prósent þeirra sem yfir höfuð héldu til rjúpnaveiða, fóru fjóra daga eða færri. Sárafáir fóru fleiri daga en átta.
Þegar aðeins er horft til þeirra sem fóru til veiða er meðaltal sóknardaga um þrír.
Um er að ræða Facebook-könnun í hópi skotveiðimanna en í því samhengi má taka fram að hún er ekki vísindalega unnin. Hún gæti þó gefið hugmynd um hvernig skyttur höguðu veiðum sínum á vertíðinni. Rysjótt veður var víða um land, sérstaklega tvær af þeim fjórum helgum sem rjúpnaveiðar voru heimilar. SKOTVÍS hefur talað fyrir því að veiðidögum verði fjölgað. Það væri til þess fallið að auka öryggi veiðimanna, sem gætu þá valið að fara við betri aðstæður, auk þess sem í opinberum gögnum hefur komið fram að veiðimenn fara ekki oftar til rjúpna veiða þótt veiðitímabilið sé lengt.
„Þessar niðurstöður sýna að tíðarfarið á síðasta rjúpnaveiðitímabili hefur gert veiðimönnum mjög erfitt fyrir, og að sá tími sem umhverfisráðherra ákvað að skammta veiðimönnum úr hnefa er of stuttur,“ segir Dúi Landmark, formaður SKOTVÍS við DV en sóknardagar á veiðimann eru heldur færri en miðað hefur verið við. „Reynsla þessa árs sýnir klárlega að endurskoðunar er þörf á veiðitímanum, vonandi ber næsti umhverfisráðherra gæfu til að vinna að ásættanlegu fyrirkomulagi með SKOTVÍS fyrir komandi ár.“