Nú er hugsanlega komið svar við þeirri spurningu og það skelfir marga. Beate var nýlega dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir sinn þátt í morðunum eftir fimm ára réttarhöld. Í þeim kom aldrei fram hvort NSU hefði notið aðstoðar fleiri. Hver hefði séð hópnum fyrir vopnum og fölsuðum skilríkjum. Talið er öruggt að NSU hefði aldrei náð að starfa svo lengi og leynast svo lengi án utanaðkomandi hjálpar. Við réttarhöldin kom fram að grunur léki á að lögreglumenn hefðu stutt NSU en ekki var hægt að sanna það.
Á sunnudaginn skýrði þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung frá því að komist hefði upp um hóp lögreglumanna í Frankfurt sem eru grunaðir um að vera félagar í samtökum öfgahægrimanna, nýnasista.
Í ágúst sendi þessi hópur hótunarbréf til Seda Basay-Yildiz, lögmanns af tyrkneskum ættum, sem varði íslamskan öfgamann í réttarhöldum í Þýskalandi. Hún tengist einnig máli NSU. Í bréfinu stóð meðal annars: „Ógeðslega tyrkneska hóra. Þú færð ekki að skemma Þýskaland. Komdu þér í burtu á meðan þú getur, svínið þitt.“
Bréfið var faxað til hennar. En það sem kom upp um hópinn var að í bréfinu var því hótað að dóttir Basay-Yildiz yrði myrt og fylgdi nafn og heimilisfang dótturinnar með. Þessar upplýsingar voru leynilegar. Undir bréfið var skrifað: „NSU 2.0.“
Við rannsókn málsins kannaði lögreglan hvort lögreglumenn hefðu notað tölvukerfi lögreglunnar til að finna heimilisfang dóttur Basay-Yildiz án heimildar. Í framhaldi að því beindist grunur að fimm lögreglumönnum, fjórum körlum og einni konu, sem deildu nasistamyndum og áróðri í lokuðum spjallhópi á netinu. Lögreglumönnunum hefur nú verið vikið frá störfum á meðan málið er rannsakað.
Lögreglan segir að ekki sé hægt að útiloka að málið sé mun stærra að vöxtum og að mun fleiri lögreglumenn tengist því. Rannsóknin styður grunsemdir sem lengi hafa verið á lofti um að nýnasistar og öfgahægrimenn hafi komið sér fyrir innan þýsku lögreglunnar og skelfir þetta marga Þjóðverja.